Of dýrt. Það er kjarninn í svarinu sem ég fékk sagði Hildur Hlín Sigurðardóttir, MS-sjúklingur, í viðtali í þættinum Ísland í dag þ. 20. maí s.l., þegar henni hefði verið neitað um lyfið Tysabri vegna efnahagsástandsins á Íslandi. Hún fékk afsvar þrátt fyrir tilvísun sérfræðings og eftir að hafa fengið 9 MS köst á einu ári. Á LSH hefur hún fengið læknisfræðilægar skýringar á afsvari, sem læknir hennar hafnar. Í viðtali við Matthías Halldórsson, landlækni, kannast hann við að hagrænar rannsóknir sýni, að Tysabri sé þjóðhagslega hagkvæmt.

Í þættinum fjallaði landlæknir um kostnaðinn af Tysabri og af svari hans að dæma virðist kostnaður ráða vali á Tysabri-þegum. Þetta er í fyrsta skipti sem hið opinbera ber fyrir sig kostnað vegna forgangsröðunar MS sjúklinga, sem læknar hafa vísað í Tysabri lyfjameðferð.

Hildur Hlín er 33 ára gömul þriggja barna móðir. Hún hefur beðið í þrjú ár eftir því að fá lyfið Tysabri og bíður enn. Hún greindist með MS 19 ára gömul. Á s.l. ári hefur sjúkdómurinn versnað til muna. Tysabri hemur MS-sjúkdóminn og hefur árangur af lyfjagjöf þess verið talinn um 80%, þ.e. að 8 af hverjum 10 sjúklingum líði betur eftir en áður. Ekkert lyf kemst með tærnar þar sem Tysabri er með hælana.

Í máli Hildar Hlínar kom fram sá misskilningur að kostnaður við Tysabri væri um 3 milljónir á mánuði. Það er ekki rétt. Samkvæmt nýjustu tölum nemur mánaðarlegur kostnaður við Tysabri um 340 þúsundum króna.

Saga Hildar Hlínar er ein af mörgum, sem greint hefur verið frá í fjölmiðlum á þessu ári og hinu síðasta, en lyfjameðferð með Tysabri hófst 17. janúar 2008.

Viðtalið við Hildi Hlín - Neitað um Tysabri aftur og aftur

Sigríður Elva, dagskrárgerðarmaður Íslands í dag leitaði eftir skýringum hjá Matthíasi Halldórssyni og spurði hann hvort rétt væri að stjórnvöld vildu ekki setja Huldu á lyfið vegna kostnaðar? Hann sagði að lyfið gagnaðist vel og betur en önnur lyf, en það væri dýrt. Hann sagði, að “kostnaður hafi alltaf áhrif á heilbrigðisþjónustu og mælikvarðinn sé gagnsemi.”

Viðtalið við Matthías Halldórsson - Lyfið of dýrt

                                                                   - h