Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa gert samning við Strætó bs. um umsjón með Ferðaþjónustu fatlaðra. Þjónustan verður aukin frá n.k. áramótum með hærri gæðakröfum varðandi bíla og búnað þeirra og styttri fyrirvara á pöntun. Akstur verður í boði á sama tíma og þjónusta strætisvagna og hægt verður að panta ferðir með aðeins tveggja tíma fyrirvara.

Smári Ólafsson, rekstrarstjóri ferðaþjónustu fatlaðs fólks, segir að nýr tölvubúnaður verði tekinn í gagnið fyrir þjónustuna sem geri notendum auðveldara að panta sér ferðir. Þannig geti Strætó bs. skipulagt ferðirnar betur. Þjónustuver Strætó bs muni sjá um pantanir en félagsþjónusta hvers sveitarfélags muni ákveða hverjum er heimilt að nota þjónustuna og hvernig.

Kópavogsbær verður ekki aðili að samningnum fyrst um sinn, vegna samnings sveitarfélagsins við akstursaðila sem sér um þjónustuna í dag.

 

 

 

Núverandi fyrirkomulag er ekki sveigjanlegt en panta þarf ferðir með a.m.k. dags fyrirvara. Það hentar alls ekki öllum, því bæði er auðvelt að gleyma að panta og eins geta komið upp tilvik þar sem ferðast þarf á milli staða með stuttum fyrirvara.

Öryggisbúnaði ferðaþjónustubíla sem nú eru notaðir fyrir þjónustuna er einnig ábótavant, bæði hvað varðar festingar hjólastóla við bílana, skortur á hnakkapúðum, sérstaklega fyrir hjólastólanotendur og skortur á 3ja punkta öryggisbeltum.

Það er því gleðilegt að úrbætur séu væntanlegar J

 

 

Bergþóra Bergsdóttir