Þriðjudaginn 23. ágúst var haldinn kynningarfundur hjá MS félaginu um lyfið LDN sem hefur verið töluvert í fréttum undanfarið. Sverrir Bergmann taugasérfræðingur kynnti lyfið og svaraði spurningum. Húsfylli var og rúmlega 100 manns mættu á fundinn. Fundurinn var einnig streymdur og var gott áhorf þar sem um 130 manns fylgdust með fundinum á netinu. Fundurinn er á heimasíðu félagsins og er unnt að nálgast hann með því að smella hér.

Sverrir sagðist ekki hafa heyrt um notkun á LDN við þreytu og verkjum fyrr en nýverið. LDN er gamalt lyf og var upphaflega notað til að stöðva löngun í vímuefni og þá gefið í stórum skömmtum 50-100 mg á dag. Fyrir 26 árum fór læknir í Bandaríkjunum að nota lyfið í smáum skömmtum 3-5 mg á dag til að draga út m.a. úr þreytu og verkjum. Meðferðin hefur áhrif á endorfínframleiðslu líkamans og virðist milda einkenni sjálfsofnæmissjúkdóma þar á meðal bólgur. Þetta lyf hefur verið meira notað í Bandaríkjunum en Evrópu. Erlendis er byrjað að rannsaka áhrif lyfsins í smáum skömmtum. Aukaverkanir af langtímanotkun eru ekki þekktar en læknirinn Bihari í New York hefur notað lyfið í 26 ár án alvarlegra aukaverkana. Að mati Sverris ætti þetta lyf að vera til hér og aðgengilegt sjúklingum. Í versta falli gerir lyfið ekkert en gæti létt mörgum lífið með því að lina verki og þreytu og bætt þar með líðan. Lyfið virðist virka á alla gigt nema síst slitgigt.

LDN ER EKKI FYRIRBYGGJANDI MS LYF
Fyrirbyggjandi lyf eru interferon lyf (Betaferon, Avonex, Rebif), Copaxone, Tysabri og Gilenya, sem er nýtt lyf og væntanlegt í lok árs. LND má ekki nota með interferonlyfjum og ekki með sterkum verkjalyfjum. Einnig þarf að athuga málið ef lifrarstarfsemi er ekki í lagi. Hætta þarf töku þessara lyfja hálfum mánuði áður en byrjað er að taka LDN. Ekki er sannað að LDN stöðvi eða hægi á framgangi MS sjúkdómsins. Það vantar enn vísindalegar sannanir um lækningarmátt LDN, en það þarf að hlusta á reynslusögur fólks og hvað það hefur að segja. Þeir sem hafa hug á að fá þetta lyf skulu hafa samband við sinn lækni, útskýra og upplýsa um LDN og fá hjá honum nauðsynleg gögn. Lyfið er ekki bannað hér og er verið er að vinna í því að hafa samband við umboðsaðila. Lyfið er unnt að fá erlendis og hér er að finna góðar upplýsingar sem teknar eru af Facebook síðu LDN hópsins á Íslandi.

Ég bendi MS fólki á að horfa á fyrirlesturinn sem er aðgengilegur hér og Facebook notendur geta kynnt sér nánar efni um LDN á Facebook síðu LDN hópsins á Íslandi með þvi að smella hér.

Fólki er s.s. ráðlagt að ræða við sinn lækni og fylgjast með á síðu MS-félagsins, jafnt heimasíðu sem Facebooksíðu. Við munum setja inn fréttir um framgang mála.

Berglind Guðmundsdóttir