Um níuleytið í gærkvöld lenti FLY FOR MS Cessna-flugvélin á Reykjavíkurflugvelli eftir erfitt flug í lélegu skyggni frá Kulusuuk á Grænlandi. Vegna slæmra veðurskilyrða, einkum á Grænlandi, tafðist flugið um 12 klukkustundir. Með í vélinni voru fjórir sjálfboðaliðar frá New York, þeir Andrei Floroiu, forsprakki átaksins, Keith Silats, Florian Trojer og Mike Sweeney.

Um 15-20 manns, með Berglindi Guðmundsdóttur, formann, í broddi fylkingar, tóku á móti fjórmenningunum. Upphaflega var fyrirhugað að þeir félagar gæfu kost á útsýnisflugi í gærmorgun, en eins og Andrei Floroiu sagði við MS-vefinn í gærkvöldi er enginn hægðarleikur að skipuleggja upp á mínútu ferðalag á þessari flugleið í því veðri, sem þeir lentu í.

Í dag heimsækja þeir MS Setrið og bjóða MS-sjúklingum síðan í útsýnisflug yfir Reykjavíkursvæðið ef veður leyfir.

Andrei sagði, “að mótvindur var ekki mjög mikill en aðalvandamálið hafi verið hliðarvindur og mjög lélegt skyggni. Á köflum þurftum við að lækka flugið verulega vegna þess að skyggnið var nánast ekki neitt.”

Á ReykjavíkurflugvelliFLY FOR MS er átak hóps sjálfboðaliða og áhugamanna um MS-sjúkdóminn, sem hafa unnið öflugt kynningarstarf í New York og var Margrét Kjartansdóttir, námsmaður í borginni, þátttakandi í starfinu og undirbúningi Íslandsþáttar FLY FOR MS. Eftir Íslandsdvölina halda þeir félagar áfram til Evrópu þar sem þeir hyggjast heimsækja allt að 30 lönd og safna gjafafé og áheitum, sem ætlunin er að komi til góða í hverju landi fyrir sig. Þeim telst til að alls muni þeir fljúga tæplega 50 þúsund kílómetra í þágu MS – eða sem nemur einum hring í kringum jörðina.

Við hvetjum MS-fólk til að heimsækja sérstaka heimasíðu átaksins og Facebook síðu ferðarinnar.

Nánari upplýsingar eru í fréttinni MS FLUGFERÐIN - REYKJAVÍK Á FIMMTUDAG dags. 31. ágúst hér að neðan.

MS-félagið býður fjórmenningana velkomna til Íslands.

halldorjr@centrum.is