Sóley Þráinsdóttir, taugalæknir, flutti greinargott erindi 1. febrúar s.l. um fyrirbyggjandi MS-lyfið Gilenya sem er fyrsta MS-lyfið í töfluformi. Hún fór vel yfir virkni lyfsins, aukaverkanir og þær rannsóknir sem þarf að framkvæma á sjúklingum áður en byrjað er að gefa lyfið. Sömu ábendingar eru um notkun Tysabri og Gilenya. Lyfinu er ávísað til sjúklinga með afar virkan sjúkdóm, þrátt fyrir meðferð með rebif, avonex, copaxone og/eða betaferon, með köstum og bata á milli. Einnig til þeirra sem eru með alvarlegan hratt versnandi sjúkdóm með tíðum köstum.

Á Norðurlöndunum er byrjað að gefa Gilenya. Þar er farið mjög varlega í notkun og fylgst er mjög vel með sjúklingum því nýjar og óþekktar aukaverkanir geta komið fram. Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir að ekki er komin löng reynsla á lyfið og langtímaáhrif óviss.

Hér á landi verður Gilenya í fyrstu gefið þeim sem búnir eru að vera lengur en tvö ár á Tysabri og eru með mótefni gegn JC veirunni í sér. JC-veiran getur valdið PML-heilabólgu sem er hættulegasta aukaverkun Tysabri.

Því miður er ekki hægt að segja til um hvenær Gilenya verður fyrsta lyfið í fyrirbyggjandi meðferð. Það ánægjulega er þó að verið er að rannsaka lyfið fyrir MS-sjúklinga með síversnun en engin lyf eru sérstaklega til fyrir þennan sjúklingahóp nú. Einnig eru fleiri ný lyf í tilraunum og vonandi væntanleg á markað á næstu árum.

Við bendum fólki á að hafa samband við sinn taugalækni og ræða um fyrirbyggjandi meðferðir.

Þeim sem ekki eru með taugalækni er bent á að hafa samband við heimilislækni og fá aðstoð.
Ítarlega er fjallað um Gilenya og önnur lyf í fyrirlestrinum sem er aðgengilegur á heimasíðu MS félagsins.

Tengill á fyrirlestur um Gilenya 

Tengill á upplýsingar um lyfið Gilenya (samantekt á eiginleikum lyfs)

BG