FRÆÐSLUFUNDUR UM OMEGA 3 OG D-VÍTAMÍN
- Fyrirlesari dr. Sigmundur Guðbjarnason –



Í lok janúar sl. fékk MS-félagið góða heimsókn þegar dr. Sigmundur Guðbjarnason frá SagaMedica hélt fyrirlestur á fræðslufundi félagsins. Fyrirlesturinn fjallaði einkum um Omega 3 og D-vítamín en einnig um hollt mataræði og rannsóknir og afurðir SagaMedica úr íslenskum jurtum. Kann félagið honum bestu þakkir fyrir.

Hátt í 30 manns sáu sért fært að mæta á fundinn en fyrir landsbyggðafólk og þau sem ekki áttu heimangengt er hér gerð tilraun til þess að setja hljóðupptöku af fyrirlestrinum á vefinn. Sökum ókunnugleika á upptökutækjum tókst ekki eins vel til og vonast var eftir en ekki verður gefist upp. Við biðjum því fyrirlesara og hlustendur upptökunnar velvirðingar á lélegum hljóðskilyrðum.

Til viðbótar hljóðupptökunni fylgja glærur sem dr. Sigmundur notaði á fyrirlestrinum.

Glærur:
SMELLIÐ HÉR

Hljóðupptaka:
1. HLUTI
2. HLUTI
3. HLUTI
4. HLUTI
5. HLUTI

Hér að neðan má einnig finna ýmsan fróðleik um D-vítamín sem dr. Sigmundur tók saman.

********

Vítamín eða hormón, hver er munurinn?
Vítamín
eru lífsnauðsynleg efni sem líkaminn framleiðir ekki sjálfur. Hormón eru lífsnauðsynlegt efni, raunar boðefni, sem líkaminn framleiðir. D-vítamín er bæði vítamín og hormón, þ.e. líkaminn framleiðir eigið D-vítamín í húðinni með aðstoð orkuríkra geisla sólarljóssins (sólskinsvítamínið) en það dugar yfirleitt ekki og þarf líkaminn jafnframt að fá D-vítamín úr fæðunni eða sem fæðubótarefni.

Það eru 5 efni sem flokkast sem D-vítamín en algengust eru D2- og D3-vítamín. D3-vítamín (cholecalciferol) er framleitt í húð manna og hryggdýra en D2 vítamín (ergocalciferol) er framleitt af plöntum. Saman eru þau kölluð D-vítamín.

Hver er þörfin fyrir D-vítamín?
Á árum áður voru menn smeykir við D-vítamín eitrun og mæltu aðeins með teskeið af lýsi fyrir fullorðna. Nú mæla menn með matskeið af lýsi en ekki meira af ótta við A-vítamín eitrun (Það eru A- og D-vítamín í lýsi). Flestar ráðleggingar mæla með því að menn taki 1000 einingar (IU) á dag og um 1 g af kalsíum.

D-vítamín í fæðu
D-vítamín er helst að finna í þorska- og ufsalýsi, feitum fiski (síld, silungur, makríll og lax), eggjarauðu, lifur og þorskalifur.
Hákarlalýsi og omega-3 afurðir innihalda hins vegar ekki D-vítamín.
Íbætt D-vítamín er að finna í fjörmjólk, Flora Pro-Active smjörlíki og ISIO 4 matarolíu.

D-vítamín og daglega lífið.
D-vítamín þolir suðu og glatast því ekki þegar fiskur er soðinn. Hins vegar tapast 50% af D-vítamíni við steikingu á fiski í olíu og því er betra að baka fiskinn eða grilla.

D-vítamín eitrun
Ef neysla á D-vítamíni er meira en 10.000 IU á dag í 5 mánuði er hægt að fá D-vítamín eitrun. A-vítamín er miklu eitraðra en D-vítamín og dóu menn úr A-vítamín eitrun hér áður fyrr ef þeir borðuðu t.d. lifur úr ísbjörnum.

Helstu einkenni D-vítamín eitrunar
Oft er erfitt að greina D-vítamín eitrun en hún er mælanleg þegar 25-D fer yfir 200 ng/ml. Eitrun fylgir hækkun á kalsíum, hypercalcemia og einnig er oft of mikið fosfat eða hyperfosfatemia, sem getur valdið kölkun í nýrum, aukið hættu á nýrnasteinum og aukið hættu á æðakölkun sem getur leitt til dauða.
Aukið kalsíum í blóði getur valdið hægðatregðu, þunglyndi, auknum þorsta og þá koma aukin þvaglát, rugl og breytingar á hjartalínuriti.

Afleiðingar D-vítamín skorts
Beinkröm í börnum, þ.e. útlimir verða bognir, rifbeinin aflagast og geta orðið eins og fuglsbringa. Of lítið kalsíum getur valdið krampa.
Beinmeira í fullorðnum, beinin verða mjúk, verkir í beinum. Vöðvar verða máttlitlir, verkir.

******

Færðu D3 ef sólin skín í gegnum glerrúðuna?
Nei, glerið hleypir ekki UV-geislum í gegn.

Hefur aldur áhrif á D3-vítamín-myndun í húðinni?
Já, en framleiðsla er samt nægileg hjá öldruðum.

Hve mikið kalsíum er rétt að taka með 1000 IU D3-vítamíni?
Um 1000 mg af kalsíum á dag.

Hvenær dags er mest af D3-vítamíni myndað í sólbaðinu?
Milli kl. 12-14 á daginn.

Er hætta á að D3-vítamín verði þvegið af húðinni eftir sólbað?
Nei, D-vítamín er myndað í frumunum í húðinni og verður ekki þvegið af.

Þarf að taka D-vítamín á sumrin?
Á sólríkum svæðum er það ekki nauðsynlegt, en á Íslandi er sólskinið stopult og því er þörf á D-vítamín viðbót.

Hvað eiga þungaðar konur að taka mikið D-vítamíni?
Taka fjölvítamín með 400 IU og að auki fæðubótarefni með 1000 IU/dag.

Hvernig er heppilegt að gefa smábörnum D-vítamín?
Gefa þeim vítamíndropa.

Hvað eiga börn að taka mikið D-vítamín?
Smábörn eiga að fá um 400 IU/dag en börn eldri en ársgömul gætu tekið 1000 IU.

Á feitt fólk að taka meira D-vítamín?
Feitt fólk ætti að taka tvöfaldan eða jafnvel þrefaldan skammt.

Hafa lýsisbelgir D-vítamín?
Það verður að athuga hvort lýsið er þorskalýsi eða laxalýsi. Oft er búklýsi notað sem hefur verið hreinsað og er snautt af A og D. Þorskalýsi er best að taka en taka aðeins eina matskeið á dag.

Geta ljósabekkir komið í staðinn fyrir sólarljósið, eða hjálpað til, við upptöku D-vítamíns úr sólarbirtu?
Ljósabekkir geta vafalítið komið að gagni en þá verður að fara varlega og fara eftir leiðbeiningum. Ofnotkun getur verið skaðleg.

******

Sjálfsofnæmi
Sykursýki I, MS-sjúkdómur og liðagigt eru dæmi um sjálfsofnæmis-sjúkdóma.
Í sykursýki I ræðst ónæmiskerfið á beta-frumur eða Langerhans frumur í brisi og hindrar insúlín framleiðslu sem veldur þá sykursýki. Í MS-sjúkdómi er ráðist á frumur sem mynda myelin einangrunarefni fyrir taugafrumur og í liðagigt er ráðist á frumur sem mynda collagen eða prótein sem er mjög mikilvægt fyrir liðina.
Rannsóknir benda til þess að D-vítamín dragi úr hættu á þessum sjálfsofnæmissjúkdómum.

Háþrýstingur
Faraldsfræðilegar rannsóknir benda til þess að D-vítamín geti dregið úr hættu á háum blóðþrýstingi. Þeldökkt fólk og þeir sem búa norðarlega á hnettinum eru líklegri til að fá háþrýsting, þau skortir sólskinsvítamínið.

Krabbamein
Margar tegundir krabbameinsæxla hafa viðtaka fyrir D-vítamín, þ.e. D-vítamín hefur þar eitthvert hlutverk. Þetta eru brjóstakrabbamein, lungna-, húð- (melanoma), ristil- og beinkrabbamein. D-vítamín, og efni sem myndast úr því, örva frumusérhæfingu og hindra frumufjölgun en slíkt heftir fjölgun á krabbameinsfrumum.

Er gagn að því að taka D-vítamín þegar krabbamein hefur verið greint?
Það er ekki vitað hvort D-vítamín gagnast við að hefta vöxt á krabbameini en það er mikilvægt að taka nægilegt D-vítamín. D-vítamín truflar ekki lyfjameðferð.

Er nauðsynlegt að hafa 60-80 ng/ml af 25-D til að hindra krabbamein?
Það er ekki vitað en almennt er æskilegt að hafa D 60-80 ng/ml.

Eru tengsl á milli D-vítamíns skorts og hypothyroidisma eða skertrar starfsemi skjaldkirtils?
Nei.

******

D-vítamín er lífsnauðsynlegt vítamín sem hefur verið rannsakað töluvert af íslenskum vísindamönnum:

Próf. Gunnar Sigurðsson: Að minnsta kosti þriðjungur fullorðinna nær ekki æskilegum mörkum af D-vítamíni og 10-15% eru með mjög lágt D í blóði. Algjör skortur á D (sjaldgæft á Íslandi) leiðir til alvarlegs sjúkdóms, beinkröm í börnum og beinmeiru í fullorðnum. Ónógt D leiðir til minni vöðvakrafts og aukinnar áhættu á vissum tegundum krabbameina.

Laufey Steingrímsdóttir: 75% af þeim sem eru 70 ára og eldri taka lýsi eða D-vítamíntöflur daglega, rúmlega 50% fólks á aldrinum 60-70 ára en miklu færri þeirra sem eru yngri en sextugt. Ekki er æskilegt að fara yfir 50 ug af D á dag (2000 IU) yfir lengri tíma fyrir fullorðna en það mundi samsvara 5 barnaskeiðum af þorskalýsi.

Próf. Inga Þórsdóttir og samstarfskonur (Rannsóknarstofa í næringarfræði): Hafa kannað neyslu á fiski og lýsi meðal 11 ára barna í Reykjavík. Rannsóknirnar sýndu að fiskneysla 11 ára barna er minni en æskilegt getur talist meðal barna á þessum aldri og allt of fá börn taka lýsi. Stór hluti barna á þessum aldri fær líklega ekki nægilegt D-vítamín en fiskur og lýsi eru megin uppspretta D-vítamíns í matnum.

******


Mælt er með því að fólk láti mæla magn D-vítamíns í blóði áður en það hefur neyslu D-vítamíns umfram almennt ráðlagðan dagskammt.

BB