Karfan er tóm.
- Sjúkdómurinn
- Lifað með MS
- Þjónusta
- Útgáfa
- Um félagið
- Styrkja starfið
- Vefverslun
Karfan er tóm.
Í tilefni af 45 ára afmæli MS-félagsins í september 2013 lét félagið gera fræðslumynd um sjúkdóminn sem ber heitið MS: TAUGASJÚKDÓMUR UNGA FÓLKSINS. Áður hefur félagið látið gera fræðslumyndir um sjúkdóminn árin 1994 og 2003. Myndin, sem frumsýnd var á RÚV í september sl., sýnir því þróun á stöðu MS-fólks og í lyfjamálum frá því fyrir 10 árum síðan. Nú er hægt að nálgast myndina í þremur útgáfum á vefnum: án texta, með íslenskum texta og með enskum texta. Myndirnar er hægt að nálgast af forsíðu msfelag.is undir Flýtileiðir.
Myndin segir sögu þriggja einstaklinga með MS en að auki fjallar Sóley Þráinsdóttir, taugalæknir, um sjúkdóminn frá sjónarhóli læknisfræðinnar.
Fræðsla um sjúkdóminn og framþróun í meðferð skiptir félagið miklu máli. Á hverju ári greinast 15-20 einstaklingar með MS, flestir yngri en 35 ára. Greining er mikið áfall, sérstaklega þar sem sjúkdómurinn er enn ólæknandi og fólk er í blóma lífs síns. Fyrr á árum var fátt til ráða en nú hafa komið fram öflug lyf sem geta haldið framþróun sjúkdómsins að einhverju leyti í skefjum og fleiri lyf eru væntanleg.
Með framþróun í læknavísindum og betri tækjum er unnt að greina fólk fyrr en áður var. Rannsóknir hafa sýnt að því fyrr sem einstaklingur greinist og kemst á lyf þeim mun meiri líkur eru á að sjúkdómseinkenni verði mildari eða framgangi sjúkdómsins seinki. Það er því nauðsynlegt að einstaklingur fái greiningu sem allra fyrst eftir að einkenna verður vart og er þannig mikilvægt að almenningur og heilbrigðisstarfsmenn þekki vel til byrjunareinkenna sjúkdómsins. Fræðsla út í samfélagið er því mjög mikilvæg.
Í því skyni hefur MS-félagið um langt árabil gefið út ýmsa fræðslubæklinga, haldið fræðslufundi og komið fram í fjölmiðlum auk þess að gefa út tímaritið MeginStoð tvisvar á ári. Eins og áður segir hefur félagið staðið að framleiðslu tveggja um sjúkdóminn; BARÁTTAN VIÐ MS árið 1994 og LÍF MEÐ MS árið 2003, auk myndarinnar sem nú hefur verið gerð.
Dagskrárgerð fræðslumyndarinnar er í höndum Páls Kristins Pálssonar og Ólafs Sölva Pálssonar. Framleiðandi er Epos kvikmyndagerð fyrir MS-félagið.
BB