“Ég er allt önnur til heilsunnar eftir að ég byrjaði fyrir alvöru að neyta einungis svokallaðs lifandi fæðis,” segir Halla Margeirsdóttir, sem ætlar að fræða MS-félaga og aðra áhugamenn um mataræði, sem kennt er við dr. Ann Wigmore. Halla greindist með MS fyrir réttum 10 árum, en breytti mataræði sínu að loknu talsverðu sjálfsnámi um næringarfræði fyrir rösku ári síðan. Hún leggur áherzlu á, að það geti verið varasamt að nærast samkvæmt þessum stíl án þess að kunna til verka og þekkja hráefnið. Halla segir frá reynslu sinni af “lifandi fæði” kl. 11:30-13:00 á morgun, laugardaginn 6. júní.

Halla neytir einungis “lifandi fæðis”, en samkvæmt slíku mataræði er lögð áherzla á enzímríkan mat og auðmeltan og eru helztu hráefnin grænmeti, ávextir, hnetur og fræ. Flest af því sem hún notar í matargerð sína fær Halla í verzlunum, sem selja heilsufæði. Rétt er að fram komi, að Halla neytir einnig hráfæðis, þótt hún sé trú Ann Wigmore lífsstílnum.

Ensím í fæðu eyðileggjast við 40°C og þess vegna er áhersla lögð á ósoðinn mat. Hveitikorn er látið spíra og búinn til kornsafi, möndlur og fræ eru notuð í drykki o.s.frv. Til dæmis er hveitigrassafinn mikilvægur þáttur í lifandi fæði. Upplýsingar um lifandi fæði eru á vefnum www.himnesk.is þótt þar séu ekki upplýsingar um sérlega útfærslu Höllu á þessu mataræði.

Halla er ekki á neinum MS-lyfjum og viðurkennir raunar, að henni sé heldur illa við lyf og hafi alla tíð forðast notkun þeirra. Þegar hún hefði verið greind með MS hefði hún neitað að viðurkenna það og verið í afneitun til að byrja með.

Mynd af Höllu Margeirsdóttur með dóttur sínaHún ákvað síðar að fræðast skipulega um ýmiss konar mismunandi mataræði, sem kynni að gera henni gagn sem MS-sjúklingi. Í janúarmánuði 2007 átti hún stúlkubarn og fékk næstu mánuði á eftir óvenju mörg MS-köst og verri en fyrr. Eftir þessa reynslu ákvað hún að breytt mataræði gæti verið mikilvægt. Fyrir rúmlega einu ári skipti hún yfir í “lifandi fæði”. Hún viðurkennir, að talsvert umstang sé samhliða því að neyta einungis lifandi fæðis, en það sé þess virði.

“Þetta mataræði hefur haft rosalega góð áhrif á mig sem MS-sjúkling, breytt ýmsu og lagað í daglegu lífi mínu og þannig gert sjúkdóminn bærilegri,” segir Halla.

Halla Margeirsdóttir verður fyrirlesari á fræðslufundi MS-félagsins á Sléttuvegi 5 kl. 11:30-13:00 á morgun, laugardaginn 6. júní. - hh