Að þessu sinni sendi MS-félagið út fundarboð á Akureyri og sveitirnar í kring. Góð mæting var á fundinn eða um 40 manns. Auk Eyfirðinga komu fundarmenn frá Skagafirði, Dalvík, Grenivík og Húsavík.

Berglind kynnti félagið og þá starfsemi sem stendur landsbyggðarfólki til boða, en það er einkum íbúðin á Sléttuvegi 9 og þjónusta félagsráðgjafa. Einnig kynnti hún tímartið Megin Stoð, bækur og bæklinga sem félagið hefur gefið út. Þá talaði hún um mikilvægi jólakortasölu og minningarkorta til fjáröflunar fyrir félagið og hvatti fólk til að skrá sig á tölvupóstlista félagsins og endurnýja upplýsingar um félagsaðild, ef þörf væri á því.

Bergþóra flutti langt og greinargott erindi um MS-sjúkdóminn og lyfjamál, þá bæði lyf sem nú þegar eru í notkun og eins þau sem eru í umsóknarferli hjá EMA, Evrópsku lyfjastofnuninni. Eins fór hún yfir rannsóknarniðurstöður MS-lyfja, vítamína og stofnfrumuaðgerða þó enn sé langt í land með að þær standi MS-fólki almennt til boða.

Sigurbjörg kynnti ýmis smáhjálpartæki frá Eirberg. Það sem hún var með í farangrinum voru tæki sem létta dagleg störf, eins og við að losa tappa, opna dósir, skera brauð og ost. Einnig sýndi hún hækjur, stafi og fylgihluti. Mesta ánægju vakti dósaopnari sem gengur fyrir rafhlöðum og krókur til að opna bjórdósir.
Góðar umræður sköpuðust á fundinum, aðallega um lyfjamál, og er greinilegt að fólk fylgist vel með.

Stuðningshópar eins og Akureyrarhópurinn er ómetanlegur fyrir MS-fólk. Þar fær fólk tækifæri til að ræða ýmis mál sem tengjast sjúkdómnum en einnig félagsskap.

Við stöllur þökkum Norðlendingum kærlega fyrir góðar móttökur og vonum að fundurinn hafi verið fólki til gagns og ánægju.

Berglind, Bergþóra og Sigurbjörg


Mynd: Akureyrarstofa/ Auðunn Nielsson