Undir lok nóvember sl. fóru þrír fulltrúar frá Íslandi á fund Norræna MS-ráðsins (NMSR) sem haldinn var í Helsinki.

Ísland fer nú með formennsku í ráðinu.

Samhliða fundi NMSR funduðu ungir fulltrúar félaganna sérstaklega. Í burðarliðnum er norræn stuttmynd um ungt fólk með MS. Ástríður Anna Kristjánsdóttir var ungur fulltrúi félagsins.

Á myndinni hér að ofan má sjá Ástríði Önnu (í blárri skyrtu), í hópi félaga sinna.

Aðrir fulltrúar Íslands voru Heiða Björg Hilmisdóttir, varaformaður MS-félagsins og formaður NMSR og Helga Kolbeinsdóttir, starfsmaður MS-félagsins og ritari NMSR.

 

Verkefni unga fólksins

Ungu fulltrúarnir höfðu fengið það verkefni að undirbúa kynningu og fjárhagsáætlun að gerð norrænnar stuttmyndar um ungt fólk með MS.

Gert er ráð fyrir að tíu ungir einstaklingar með MS segi sögu sína, tveir frá hverju landi. Allir munu tala á sínu tungumáli en myndin verður textuð á ensku.

Á Íslandi, eins og á hinum Norðurlöndunum, verður auglýst eftir fjórum ungum einstaklingum. Fyrir hvern og einn verður lagður spurningarlisti sem sendur verður á framleiðslufyrirtæki myndarinnar sem staðsett er í Danmörku. Fyrirtækið mun síðan velja tvo einstaklinga frá hverju landi til að koma í tökur til Danmerkur í vor.

Norræna ráðið fjármagnar verkefnið sem áætlað er að ljúki næsta sumar.

Helga Kolbeinsdóttir er verkefnisstjóri.

 

Fulltrúar á fundi NMSR:

 

Helga er lengst til vinstri og Heiða Björg er áttunda frá vinstri.

 

BB