Fyrirkomulag ferðaþjónustu fyrir fatlað fólk mun breytast frá áramótum þegar Strætó bs. tekur nær alfarið við þjónustunni á höfuðborgarsvæðinu. Fyrirkomulag þjónustunnar mun verða óbreytt að sinni fyrir Kópavogsbúa.

 

Helstu breytingar:

·         Hægt er að panta eða afpanta ferð með allt að tveggja klukkustunda fyrirvara án sérstaks gjalds

·         Þjónustutími lengist

·         Hægt er að fá tilkynningu með SMS um komu ferðaþjónustubíls með 15 mínútna fyrirvara sé um það beðið.

 

Pantanir og afpantanir:

Ferðir eru pantaðar og afpantaðar á:

·         Vefslóðinni www.straeto.is/akstursthjonusta (hægt allan sólarhringinn)

·         Hjá Þjónustuveri Strætó í síma 540 2700 sem er opið alla virka daga milli kl. 6:30 og 24:00, á laugardögum milli kl. 7:30 og 24:00 og á sunnudögum milli kl. 9:30 og 24:00. 

·         Á netfangið pontun@straeto.is. Nauðsynlegt fyrir flóknari pantanir, ef panta þarf vikur fram í tímann eða ef panta á fyrir marga farþega í einu

Ef ferð á að hefjast fyrir kl. 9:30 að morgni þarf pöntun að hafa borist fyrir kl. 20:30 kvöldinu áður. Ef ferð er afpöntuð með styttri fyrirvara en tveimur klukkustundum þá telst ferðin með í uppgjöri.

Hægt er að panta bíl hvort sem er eftir brottfarartíma eða eftir því hvenær viðkomandi þarf að vera mættur á ákveðinn stað. Dæmi: Vinnutími Siggu er frá kl. 8 til kl. 16. Hún pantar því morgunferðina eftir mætingartíma, þ.e. kl. 08:00 en síðdegisferðina eftir brottfarartíma, þ.e. kl. 16:00. Það tryggir að hún er mætt í vinnu kl. 8 og fer þaðan kl. 16.

 

Þjónustutími akstursþjónustunnar er:

·         Mánudaga-föstudagakl. 6:30 til miðnættis

·         Laugardaga                kl. 7:30 til miðnættis

·         Sunnudaga                 kl. 9:30 til miðnættis

nema á stórhátíðardögum.

 

Reglur ferðaþjónustunnar:

·         Ein ferð reiknast frá stað A til B, þ.e. án viðkomu á fleiri stöðum

·         Þjónustusvæðið er Stór-höfuðborgarsvæðið

·         Hámarksferðatími fyrir farþega er 60 mínútur í bílnum en ferðatíminn miðar að jafnaði við ferðatíma strætó á milli staða

·         Fleiri en einn farþegi geta þurft að ferðast saman

·         Aðstoð bílstjóra miðast við að sækja farþega í anddyri brottfararstaðar og fylgja honum að anddyri á komustað

·         Farþegi skal vera tilbúinn í anddyri á umsömdum tíma

·         Ferðaþjónustubíll getur komið allt að 10 mínútum fyrir umsaminn tíma og bílstjóri skal bíða í allt að 10 mínútur frá umbeðnum tíma ef þörf er á.

·         Bílstjóra er ekki heimilt að sinna erindum fyrir farþega.

·         Farþega er heimilt að hringja á bíl að lokinni læknisviðtali nema hann hafi vitað fyrirfram hversu langan tíma viðtalið tæki

·         Farþega er heimilt að taka með sér ferðafélaga og gjaldfærist fargjaldið þá á skráðan farþega þjónustunnar

·         Börn undir 6 ára greiða ekkert séu þau í fylgd fatlaðra foreldra.

 

Geti farþegi ekki ferðast einsamall að mati viðkomandi sveitarfélags, skal aðstoðarmaður fylgja honum. Viðkomandi sveitarfélag greiðir laun og annan kostnað aðstoðarmanns. Aðstoðarmaður greiðir ekki fargjald.

Allir greiðsluseðlar vegna þjónustunnar verða sendir rafrænt í heimabanka viðkomandi, að jafnaði á 2ja mánaða fresti nema um annað sé beðið. Það er hægt með því að hringja í síma 540 2700 eða með tölvupósti.

Umsókn um akstursþjónustu fatlaðs fólks og aldraðra skal berast til þjónustumiðstöðvar/félagsþjónustu í því sveitarfélagi sem umsækjandi á lögheimili í, sem ákvarðar heimild til þjónustunnar, fjölda ferða og gjaldskrá.

 

Strætó bs. hefur sett reglur um ökutæki sem notuð eru í þjónustuna, ökumenn og aðra starfsmenn. Ökutækin þurfa að fara reglubundið í gegnum ítarlegar gæða- og öryggisúttektir og verða niðurstöðurnar sýnilegar í ökutækjunum. Ökumenn þurfa að hafa meirapróf, hafa sótt námskeið m.a. í skyndihjálp og hafa hreint sakarvottorð gagnvart kynferðisbrotum. Þá munu ökumenn þurfa að sækja sérstök námskeið sem miða að því að þeir geti þjónað einstaklingum með mismunandi þarfir og sem auka skilning þeirra og hæfni í að veita góða þjónustu.

Núverandi ökutækjum verður skipt út fyrir ný við fyrsta tækifæri.

 

Heimild: Bæklingurinn „Akstursþjónusta Strætó bs.“

 

Bergþóra Bergsdóttir