Alþjóðlegu samtökin, "Progressive MS Alliance" undir stjórn MSIF, alþjóðasamtaka MS-félaga, hafa það að markmiði að flýta fyrir því að fundin verði meðferðaúrræði við seinni síversnunarformi MS-sjúkdómsins. Engin sérstök MS-lyf eru til við seinni síversnun sem um helmingur MS-fólks þróar með sér eftir því sem líður á sjúkdómsferli þeirra. Nú á dögunum veittu samtökin 22 milljónir evra, að jafnvirði 3.350 milljóna króna, til rannsókna á þessari tegund sjúkdómsins yfir næstu 6 ár.

Áhugi á rannsóknum á seinni síversnun í MS er alltaf að aukast þar sem um frekar óplægðan akur er að ræða. Fjármögnun rannsóknaverkefna Progressive MS Alliance (PMSA) á að hjálpa til við að auka alþjóðlegt samstarf og samvinnu á þessu sviði og styrkja rannsóknir sem nú þegar eru í gangi og örva nýjar rannsóknir. Margir aðilar og samtök koma að fjármögnun PMSA, meðal annars danska MS-félagið.

PMSA óskaði fyrr á árinu eftir umsóknum vísindamanna um allan heim til rannsóknarverkefna og var ákveðið að styrkja 22 rannsóknarverkefni að þessu sinni en 195 umsóknir bárust frá 22 löndum. PMSA ætlar þó ekki að slá slöku við þó búið sé að útdeila þessum himinháu fjárhæðum því síðar á árinu verður aftur auglýst eftir umsóknum um fjárstyrki til rannsóknarverkefna.

Þessir styrkir sem veittir eru nú eru til skammtímaverkefna sem eiga að taka yfir 1-2 ára tímabil.

Rannsóknirnar beinast að sex sviðum:

·         Klínískum rannsóknum þar sem prófaðar verða ýmsir meðferðamöguleikar

·         Rannsóknum á ýmsum efnum eða lífvísum (biomarkers)

·         Erfðarannsóknum

·         Rannsóknum á bestu endurhæfingu sem völ er á fyrir MS-fólk í síversnun

·         Rannsóknum á því hvað gerist í MS sem leiðir til versnunar á sjúkdómnum

·         Þróun nýrra kerfa sem hægt verður að nota til rannsókna á sjúkdómnum

 

Þetta er stórkostlegt og stórhuga verkefni sem aðilar um allan heim koma að. Í stað þess að rannsóknaraðilar séu hver að bauka í sínu horni/landi þá hafa þeir nú tekið höndum saman þvert á landamæri við að leita lausna fyrir bráða þörf á meðferðarúrræðum fyrir stóran hóp sjúklinga sem engin MS-lyf eru til fyrir.

 

Progressive MS Alliance var stofnað formlega á síðasta ári af MSIF og MS-samtökum í Bandaríkjunum, Bretlandi, Hollandi, Kanada og Ítalíu.

 

 

Bergþóra Bergsdóttir