D-vítamín virðist allra meina bót skv. röð rannsókna sem gerðar hafa verið á undanförnum árum. Miklar umræður hafa þó skapast um hvað er nægjanlegt magn og hvað of mikið og eru ekki allir á eitt sáttir. Eins er miklar umræður í gangi um áhrif D-vítamíns á sjúkdómsvirkni MS.

D-vítamín er hormón sem myndast í húðinni og verður virkt í líffærum eins og lifur og nýrum og stjórnar meðal annars nýtingu kalks og fosfats úr fæðunni og myndun beina.

Niðurstöður nýlokinnar rannsóknar benda til þess að bein tengsl séu á milli daglegrar D-vítamíninntöku, umfram núgildandi viðmið, og fækkun á skaðlegum T-frumum í MS-sjúklingum. Þannig gæti dagleg D-vítamíninntaka dregið úr virkni sjúkdómsins. Af því er hægt að ráða að of lítið D-vítamínmagn í blóði geti leitt til erfiðari sjúkdóms.

Rannsóknin var þó einungis gerð á 40 MS-sjúklingum og því þarf stærri rannsókn til að staðfesta niðurstöðurnar. Þáttakendur voru á aldrinum 18-55 ára með kastaform sjúkdómsins, allir á MS-lyfjameðferð.

 

 

Aðferð

Í rannsókninni var þátttakendum skipti í tvo hópa . Öðrum hópnum voru daglega gefnar 800 einingar af D-3 vítamíni í 6 mánuði og hinum hópnum voru gefnar 10.400 einingar daglega.

Til viðmiðunar þá samsvara 10.400 einingar því að einstaklingur hafi legið óvarinn í sólbaði í 30-60 mínútur á þeim tíma þegar sólargeislarnir eru hvað sterkastir en lægri skammturinn er um það bil opinber ráðlagður dagskammtur af D- vítamíni fyrir fullorðna sem eru 600-1.000 einingar á dag.

Magn D-vítamíns og T-frumna í blóði var mælt hjá báðum hópum við upphaf rannsóknarinnar, eftir 3 mánuði og svo aftur eftir 6 mánuði. Var sérstaklega horft til áhrifa og aukaverkana D-vítamíns á ónæmiskerfið og þá sérstaklega á magn skaðlegra T17-frumna. T17-frumur þykja gefa góða vísbendingu um virkni MS en talið er að þær hafi áhrif á bólgumyndun í heila og mænu MS-sjúklinga. Þá var magn kalsíum metið í blóði og þvagi þar sem meira (umfram) magn kalsíum í blóði getur verið aukaverkun af háskammta D-vítamíni.

 

Niðurstöður rannsóknarinnar

Niðurstöðurnar voru á þá leið að háskammta D-vítamín fækkaði T17-frumum en lágskammta meðferð gerði það ekki. Enginn munur var á aukaverkunum á milli hópanna á þessum 6 mánuðum en þær voru allar minniháttar.

Þó niðurstaða rannsóknarinnar bendi til þess að háskammmta D-vítamín dragi úr sjúkdómsvirkni MS verður að hafa í huga hvað rannsóknahópurinn var fámennur og því ekki alveg hægt að slá niðurstöðum hennar föstu hvað varðar MS-sjúklinga almennt. Ekki er heldur hægt að sjá af rannsókninni hvaða MS-einkenni gætu hugsanlega minnkað. Þá er óvissa um langtímaáhrif eða langtímaaukavekanir ef teknir eru háir skammtar af D-vítamíni í nokkra mánuði eða nokkur ár.

 

Dagleg neysla

Það virðist þó ljóst, af öllum þeim rannsóknum sem gerðar hafa verið á D-vítamíni, að dagleg neysla D-vítamíns, í hvaða formi sem hún er, hafi jákvæð áhrif m.a. á ónæmiskerfið með því að draga úr bólgum og sjálfsónæmi. D-vítamín má fá með lýsi, í pilluformi, með sólarljósi, í D-vítamínbættri mjólk eða með því að borða feitan fisk, eins og lax, síld og makríl, a.m.k. þrisvar í viku. Hafa skal í huga að of mikil sól getur valdið húðkrabbameini og því best að fara varlega þar.

Hægt er að mæla magn D-vítamíns í likamanum með blóðprufu. Ekki er mælt með því að taka inn meira magn en ráðlagt er nema að höfðu samráði við lækni eða hjúkrunarfræðing.

 

Ný rannsókn

Sami hópur vísindamanna er nú að vinna að stærri rannsókn sem í taka þátt 172 einstaklingar sem eru með MS í köstum. Þar verða borin eru saman áhrif af inntöku 600 eininga D-vítamíns annarsvegar og 5.000 eininga hinsvegar, samhliða lyfjameðferð með MS-lyfinu Copaxone, á sjúkdómsvirkni MS. Sjá hér.

 

 

Heimildir hér og hér.

Sjá einning mjög góða nýlega umfjöllun í danska sjónvarpinu „Sundhedsmagasinet“ hér (ekki textað).

 

Bergþóra Bergsdóttir