Karfan er tóm.
- Sjúkdómurinn
- Lifað með MS
- Þjónusta
- Útgáfa
- Um félagið
- Styrkja starfið
- Vefverslun
Karfan er tóm.
Veðurguðirnir rugluðust aðeins á dögum þetta árið og því var vorkuldi og dropar í lofti þegar sumarhátíð MS-félagsins var haldin 27. maí sl. Fjölmargir gestir létu það þó ekki á sig fá enda var margt í boði, m.a. hinn frábæri ungi töframaður Einar einstaki og hin glæsilega söngkona okkar, María Ólafs. Yngri börnin skemmtu sér vel í hoppukastalanum og þau sem eldri voru skoðuðu vörur sem verslanir með hjálpartæki kynntu.
Börn, jafnt sem fullorðnir, voru gapandi af undrun yfir hæfileikum og töfrum hins unga töframanns Einars einstaka enda ómögulegt að sjá hvernig spil gátu margfaldast og lokaðir hringir krækst í hvorn annan bara si svona. Sumir héldu að einhver brögð væru í tafli en nei – Einar er bara svona klár – og sérlega skemmtilegur J
María Ólafs heillaði alla með söng sínum enda stóðu börnin í langri röð eftir að fá eiginhandaráritun og mynd af sér með þessari fallegu og hæfileikaríku söngkonu J Hún fékk mikið klapp eftir að hafa sungið fyrir okkur tvö lög, þar á meðal Eurovisionlagið.
Í sjúkraþjálfunarsal voru fimm verslanir; Eirberg, Fastus, Rekstrarland, Rekstrarvörur og Stoð, með sýningu á stórum sem smáum hjálpartækum. Fólki finnst gott að sjá hvað í boði er af hjálpartækjum enda gera þau okkur lífið þægilegra á allan hátt. Sjá má nánar um hjálpartæki hér.
MS-félagið bauð gestum upp á ávexti og frostpinna og okkar góði styrktaraðili, Atlantsolía, bauð upp á pylsur og gos. Hægt er að óska eftir því við Atlantsolíu að láta eina krónu af hverjum keyptum lítra renna til MS-félagsins og getur munað um minna fyrir félagið. Hægt er að hafa samband við Atlantsolíu í síma 591 3100 til að fá þetta gert. Félagið hvetur að sjálfsögðu félagsmenn sína til að hafa samband við Atlantsolíu ef þeir vilja styrkja félagið með þessum hætti.
Félagið hefur látið gera höfuðbuff með merki félagsins og litla dreifimiða með upplýsingum um sjúkdóminn og MS-félagið og var gestum boðið að taka með sér.
Að sjálfsögðu var sérlegur ljósmyndari MS-félagsins, Kristján Einar Einarsson, á staðnum og tók myndir. Þær má sjá hér.
Bergþóra Bergsdóttir