SORPA veitir á hverju ári styrki sem tilkomnir eru af ágóða af sölu nytjahluta í Góða hirðinum. 

 

Forsendur fyrir úthlutun styrks frá Góða hirðinum eru að styrkurinn renni til verkefna sem „hjálpa fólki til sjálfshjálpar“ svo sem menntunar, endurhæfingar og sjálfsbjargar.

 

Þann 4. október sl. var 10 milljónum króna úthlutað til 17 verkefna. Að þessu sinni fékk MS-félagið styrk að fjárhæð 1 milljón króna til verkefnisins  „jafnvægis –og styrktarnámskeið“.

 

Námskeiðið er haldið í samvinnu við Reykjalund og er mjög vel sótt af MS-fólki. Á námskeiðinu er lögð áhersla á æfingar sem efla líkamlega færni, jafnvægi og styrk. Það er ómetanlegt að geta boðið MS-fólki námskeið sem er sérsniðið að þörfum þeirra.

 

 

MS-félagið þakkar SORPU/Góða hirðinum fyrir veittan stuðning.

 

 

Saga Góða hirðisins
Árið 1993 fór SORPA í samstarf við nokkur líknarfélög um endurnýtingu húsgagna sem annars færu í urðun. Þessi líknarfélög eru: Hjálparstarf kirkjunnar, Mæðrastyrksnefnd, Hjálpræðisherinn og Rauði krossinn. SORPA sá um að safna hlutum sem bárust á endurvinnslustöðvarnar en Rauði krossinn sá um að afhenda húsmuni til bágstaddra. Rekstrarformið breyttist árið 1995 þegar Rauði krossinn opnaði Nytjamarkaðinn að Bolholti 6. Árið 1997 tók SORPA alfarið við rekstri Nytjamarkaðarins og árið 1999 fékk markaðurinn nafnið Góði hirðirinn, nytjamarkaður SORPU og líknarfélaga.