Guðmundur Magnússon var kosinn formaður Öryrkjabandalags Íslands laugardaginn 24. október. Hann tekur við embætti af Halldóri Sævari Guðbergssyni, sem gaf ekki kost á sér til áframhaldandi formennsku af persónulegum ástæðum.


Guðmundur og Sigursteinn Másson formaður Geðhjálpar sóttust tveir eftir formannsembættinu en atkvæði féllu þannig að Guðmundur fékk 43 atkvæði en Sigursteinn 30 atkvæði. Guðmundur sat áður sem varaformaður bandalagsins og er fulltrúi SEM, samtaka endurhæfðra mænuskaddaðra, í stjórn ÖBÍ. Í hans stað var kjörin til varaformanns í eitt ár, Hjördís Anna Haraldsdóttir frá Félagi heyrnarlausra.


Halldór Sævar Guðbergsson, fráfarandi formaður ÖBÍAðrir sem kjörnir voru í framkvæmdastjórn ÖBÍ að þessu sinni voru Grétar Pétur Geirsson, til gjaldkera. Tveir meðstjórnendur voru kjörnir, þau Sigríður Jóhannsdóttir frá Samtökum sykursjúkra og Sigurður Þór Sigurðsson frá Ás styrktarfélagi. Þrír varamenn voru kjörnir, þau Frímann Sigurnýasson frá SÍBS, Halla B. Þorkelsson frá Heyrnahjálp og Sigrún Gunnarsdóttir,Tourette samtökunum á Íslandi.


Fundinn sátu um 110 manns, þar af um 85 fulltrúar aðildarfélaga ÖBÍ, en alls eru félögin 32.


Árni Páll Árnason ávarpaði fundinn í morgun og sagði þar að 750 milljóna króna niðurskurður í almannatryggingakerfinu væri óumflýjanlegur. Það er því ljóst, að við Guðmundi Magnússyni blasa mörg erfið verkefni á næsta kjörtímabili. - hh


Á aðalfundinum var eftirfarandi ályktun samþykkt:

Ályktun aðalfundar ÖBÍ - 24. október 2009

“Alvarlegt ástand í efnahagsmálum þjóðarinnar hefur lagst mjög þungt á öryrkja. Þeir hafa orðið að þola skerðingar á framfærslulífeyri umfram aðra þegna þessa lands. Um áramótin síðustu voru bætur almannatrygginga hjá meirihluta lífeyrisþega skertar um allt að 10% og 1. júlí síðastliðinn voru greiðslur til fjölmargra skertar ennfrekar með nær engum fyrirvara. Þar að auki var þátttaka ríkisins í kostnaði við sjúkra-, iðju- og talþjálfun skert til muna nú 1. október.

Öryrkjar nutu ekki góðærisins og eiga því sérstaklega erfitt með að takast á við kreppu og kjaraskerðingar. Aðalfundur ÖBÍ skorar á ríkisstjórn vinstri grænna og samfylkingar að bæta öryrkjum þær skerðingar sem þeir hafa orðið fyrir sem fyrst.

ÖBÍ bindur vonir við að hugmyndir nefndar sem unnið hefur að breytingum á greiðsluþátttöku almennings í heilbrigðiskerfinu nái fram að ganga. Þær gera ráð fyrir því að landsmenn borgi aldrei meira en ákveðna upphæð á ári fyrir lyf og aðra heilbrigðisþjónustu.

ÖBÍ treystir því að nefnd um endurskoðun almannatryggingakerfisins komi fram með tillögur sem einfalda kerfið, geri það sanngjarnara og bæti hag öryrkja og sjúklinga til muna. Mikilvægt er að bótaflokkurinn aldurstengd örorka verði áfram í gildi og önnur sértæk úrræði, s.s. umönnunarbætur, uppbót vegna mikils lyfjakostnaðar og bensínstyrkur. Draga þarf verulega úr tekjuskerðingum á ný. Víxlverkunum á milli almannatrygginga og lífeyrissjóðakerfisins til öryrkja verður að linna. Það er ótækt að lífeyrissjóðir skerði réttindi fólks vegna greiðslna úr almannatryggingakerfinu.

Notendastýrðri persónulegri aðstoð (NPA) er brýnt að koma á sem fyrst. Stór hópur fatlaðra þarf að vera heima í dag þar sem félagsþjónusta fer einungis fram á heimilum fólks. NPA er úrræði fyrir þennan hóp, auk þess að vera atvinnuskapandi, fyrir fjölbreyttan hóp, um allt land. NPA gerir fötluðum kleift að vera virkir samfélagsþegnar á eigin forsendum, frjálsir og ábyrgir. Við leggjum til að þjónustan verði veitt þar sem fólk kýs.

„Ekkert um okkur, án okkar“.

                                                                                                  Öryrkjabandalag Íslands