Starfsfólk geðsviðs Reykjalundar þróaði meðferðar- og sjálfshjálparhandbók í hugrænni atferlismeðferð (HAM) við þunglyndi í mörg ár með það fyrir augum að nýtast sem leiðarvísir í meðferð við þunglyndi. Bókin hefur einnig verið höfð til hliðsjónar við meðferð kvíða og annarra geðraskana og hefur þá verið aðlöguð að þörfum hvers og eins.

Hægt er að kaupa bókina og tilheyrandi verkefnabók en einnig er hægt að nálgast allt efni ókeypis á vef Reykjalundar hér.

Hugræn atferlismeðferð hefur náð mikilli útbreiðslu undanfarin ár í tengslum við ýmsan heilsuvanda, en þó einkum þunglyndi og kvíða. Rannsóknir sýna að HAM er gagnleg aðferð til að ná og viðhalda bata í þunglyndi.

Þær aðferðir sem eru kenndar í handbókinni hafa reynst hjálplegar við þunglyndi. Í meðaldjúpu og vægu þunglyndi getur sálræn meðferð ein og sér gagnast vel en ekkert mælir þó á móti lyfjameðferð samhliða hugrænni atferlismeðferð. Í alvarlegu þunglyndi er mikilvægt að leita hjálpar því þá getur lyfjameðferð verið nauðsynleg.

Á vef handbókarinnar er hægt er að hlusta á textann með því að ýta á merkið: Láttu lesa fyrir þig! en eins er hægt að hlaða handbókinni niður á mp3-format. Þá er hægt að breyta leturstærð á vefsíðunum með því að ýta á hnappana A-A+ eða kalla fram vefsíðurnar á grunni sem henta lesblindum með því að ýta á hnappinn Aa . Á ýmsum stöðum í texta koma fyrir spurningamerki á bláum grunni með nánari útskýringu á einstökum orðum eða orðasamböndum. Verkefni sem fylgja hverjum kafla er hægt að prenta út eða vista í eigin tölvu.

 

Frábært framtak hjá starfsfólki geðsviðs Reykjalundar og vefurinn algjörlega til fyrirmyndar J

 

 

BB (upplýsingar af vef Reykjalundar)