Hamingjan í skugga COVID-19

Lífið tekur stundum óvænta stefnu. Við sem glímum við MS-sjúkdóminn þekkjum það af eigin raun. Hvert okkar hefur fundið leið sem hentar okkur til að glíma við þá óvissu sem fylgir því að hafa MS í för alla daga. Við búum því að mikilli reynslu hvernig við tökum einn dag í einu og reynum að hugsa ekki of mikið um hvað verður í framtíðinni. Þeir sem glíma við langvinnan vanda læra það nokkuð fljótt að reyna að gera það besta úr hverjum degi og kunna að meta það sem hann gefur. Þegar ógn steðjar að okkur er það sannarlega lærdómsríkt. Við lærum hve sterk við erum og að fólkið okkar sem stendur okkur næst er það sem skiptir mestu máli á lífsins göngu. Sá styrkur sem við finnum á erfiðum stundum, vitum við oftast ekki að býr innra með okkur.

Ég ráðlegg ykkur að hugsa til þeirra tíma þar sem þið hafið tekist á við erfið verkefni og hvernig þið hafið sigrast á þeim. Í mínu tilfelli hugsa ég til þess tíma þar sem miðju barnið mitt var inn á Vökudeild Landspítala í einangrun á fjórða mánuð. Í þessa reynslu get ég leitað og fundið augnablik sem voru lærdómsrík. Ég minnist þess þegar ég upplifði mestu hamingju og þakklæti sem ég hef nokkru sinni fundið fyrir. Þrátt fyrir að ég hafi sjaldan eða aldrei verið í erfiðari aðstöðu í lífinu. Ég hvet ykkur til að skoða lífshlaup ykkar og finna sigrana, dýrmætu augnablikin og ógleymanlegar upplifanir.

Jafnframt að njóta samveru með þeim sem þið deilið heimili með og þakka fyrir hversdaginn með öllu því sem hann hefur upp á að bjóða. Í þessu tvennu er hægt að finna mikla hamingju og dýrmæt augnablik sem oftast fara fram hjá manni í hraða nútímans. Venjulegast finnst okkur þetta afskaplega ómerkilegir hlutir. Hér eru nokkur dæmi. Gefðu þér góðan tíma til að sinna og strjúka gæludýrinu þínu ef þú átt eittMynd af hundi og ketti slíkt. Þegar þú strýkur því taktu t.d. eftir því hvað feldurinn er mjúkur, skoðaðu litinn og hvernig ljósið fellur á hann, horfðu í augun á dýrinu þínu og taktu eftir gleðinni í augunum þegar þú sýnir því óskipta athygli. Þú getur hugað að blómunum þínum, myndasöfnum eða öðrum hlutum á heimilinu sem þér þykir vænt um. Hægt er að búa til hóp á fésbókinni þar sem stórfjölskyldan deilir lífi sínu bæði í gleði og sorg. Gleddu þá sem þú umgengst með fallegum orðum á hverjum degi en mundu að þau orð verða að koma frá hjartanu. Hældu þeim fyrir sjálfsögðu litlu hlutina s.s. að klára heimanámið, að setja í uppþvottavélina eða fallega brosið þeirra. Gerðu þér glaðan dag með heimilisfólkinu eða þér einum ef þú býrð einn/ein. Til að mynda er hægt að elda góðan mat og leggja á borð eins og væru jólin eða að hjálpast að við að útbúa bröns. Ánægju við mat er hægt að taka enn lengra með því að virkja öll skynfærin þegar við borðum. Nota sjónskynjun til að skoða litafegurð matarins, lyktarskynið til að njóta ilmsins, snertiskynið til að upplifa áferð hans og bragðskynið til að uppgötva hvort hann er sætur, saltur, súr, beiskur eða umami. Ef þú getur farið í göngutúr reyndu að upplifa umhverfið á sambærilegan hátt með sem flestum skynfærum. Skrifaðu lista yfir það sem veitir þér ánægju s.s. lestur, hannyrðir, kvikmyndir, tónlist eða spjall við vin í síma. Taktu stund frá á hverjum degi til að stunda það sem veitir þér ánægju og er heppilegt að sinna innan veggja heimilisins. Nú er einnig tími til að taka upp símann og hringja í ættingja eða vini og gefa sér góðan tíma til að spjalla. En fyrst og fremst er mikilvægt alla daga að þakka fyrir það sem við eigum á þessu augnabliki og finna hamingjuna í því smáa sem oftast fer fram hjá okkur. Hamingjan býr innra með okkur öllum ef við gefum okkur tíma til að hleypa henni inn í líf okkar.

Kærleikskveðja,

Berglind Jensdóttir

Sálfræðingur MS-félags Íslands