“Það er eins gott að hafa hraðar hendur á laugardaginn, þegar seldir verða alls kyns munir, handverk og nytjagripir,” segir Þuríður Sigurðardóttir hjá MS-Setrinu. Á milli klukkan 13-16, laugardaginn 20. nóvember, verður opið hús í MS-Setrinu, þar sem fólki gefst kostur á að kaupa fallega muni, sem fastir daggestir vinnustofu MS-Setursins ásamt starfsfólki hafa nostrað við á árinu. Einnig verður boðið upp á súkkulaði og rjómavöfflur gegn vægu verði.

Einn þátturinn í endurhæfingar- og félagsstarfi MS-Setursins á Sléttuvegi 5 (MS-húsinu) er alls kyns handíðar á vinnustofu Setursins. Næsta laugardag verður opið hús og framleiðsla ársins í MS-Setrinu á boðstólum. Úrvalið er mjög mikið í ár og verðinu stillt í hóf, en allur ágóði rennur beint til félagsstarfsins.

Þuríður Sigurðardóttir hjá MS-Setrinu sagði MS-vefnum, að handverkssalan væri orðin að föstum viðburði og mikil ásókn væri í þá muni, sem búnir hefðu verið til á vinnustofu Setursins. Við gætum þess vegna notað slagorðið “fyrstir koma, fyrstir fá” sagði Þuríður. Margir koma til að kaupa ódýrar en um leið sniðugar jólagjafir. “Það verður margt spennandi í boði til gjafa á mjög sanngjörnu verði,” sagði Þuríður.

Meðal handverksins má nefna alls kyns prjónavörur, gler, leir og kerti. Einnig margnota kreppujólatré (50 cm á hæð), grjónapokarnir vinsælu og margt fleira.

halldorjr@centrum.is