CCSVI, blóðrásarkenningin svokallaða hefur vakið talsverðar vonir um lækningu MS-sjúkdómsins síðastliðið árið, eins og sjá má af samantektinni hér að neðan (FRÉTTABRÉF FRÁ MSIF UM CCSVI UMFJÖLLUN) um ýmsar rannsóknir, sem eru í deiglunni í Kanada. Sverrir Bergmann, taugalæknir MS-félagsins hefur nokkrar efasemdir um kenninguna. Hann lýsti efasemdum sínum í samtali við MS-vefinn og gerir jafnframt grein fyrir því hvað helzt felst í henni.

“CCSVI eða blóðrásarkenningin fjallar um blóðstreymi til heila og mænu og þá meinsemd, sem á að vera fólgin í krónískri hindrun blóðstreymis frá heila og mænu. Zamboni, ítalskur læknir, segir að viðvarandi skerðing blóðflæðis frá bæði heila og mænu um bláæðar sé ríkur þáttur í því, að fólk fái MS.

Kenning Zambonis er þannig sú, að ef blóðstreymið frá heilanum og mænunni sé ekki nægilegt þá falli efni í of miklu magni úr blóðinu og valdi skemmdum á mænu og heila. Kenningin er þá í sem stytztu máli þessi: Blóðið kemur til heila og mænu en stendur of lengi við og rennur ekki nógu vel í burtu. Zamboni segir því að meira af efnum síist úr blóðinu en ætti að vera. Þótt þau séu ekki skaðleg í sjálfu sér, þá er þetta spurning um hvað mikið af þeim megi berast út í líkamann. Zamboni heldur því fram, að það sem gerist sé að bláæðarnar séu ekki nógu víðar og það valdi því að blóðið berist ekki nógu fljótt frá heilanum og mænunni. Það hafi skaða í för með sér og auki bólgur.

Samkvæmt athugun MS-vefjarins hefur Zamboni ekki lagt fram MRI myndir (segulómmyndir) sem sýna slíka bólguaukandi myndun. “Nei, það sem hann hefur gert er að hann víkkaði æðarnar á konunni sinni, sem er með MS, og hún sýndi batamerki,” segir Sverrir.

“Heilinn og mænan líða ekki af neinum súrefnisskorti”, segir Sverrir Bergmann, taugalæknir. “Það er langt frá því og það hefur aldrei verið sýnt fram á að það hlæðust upp í heila eða mænu einhver óeðlileg efni. Og það hefur ekki verið sýnt fram á þetta með myndrænum hætti. Fólk með MS hefur dáið, en ekki vegna MS, það hefur verið krufið og þar hefur einmitt verið leitað að því hvort einhver óeðlileg efni hafi verið t.d. á heila eða mænu og það hefur aldrei komið í ljós að það hafi verið einhver uppsöfnun á efnum, eins og Zambonikenningin segir til um. Og sjálfur hefur Zamboni ekki fundið neitt svona; hann hefur sjálfur enga skýringu á þessu, segir Sverrir.

“Ég vil benda á” bætir Sverrir við “að það eru til sjúkdómar þar sem safnast hefur saman óeðlilega mikið magn aukaefna á vissum stöðum í líkamanum”. Einn þeirra heitir t.d. Wilson sjúkdómurinn þar sem fundizt hefur óeðlilega mikill kopar og þeir eru fleiri svona sjúkdómar til. Þessum sjúkdómum er haldið í skefjum með meðferð.

Ein athugasemda Sverris Bergmanns er sú, að blóð líkamans þurfi að fara í hringrás og þannig flytur það súrefni og næringarefni til heila og mænu, rétt eins og það gegnir sama hlutverki annars staðar í líkamanum, þar sem blóð streymir um hann. Að því loknu þarf blóðið að fara tilbaka, til lungnanna, þar sem það endurnýjar sig með því að taka til sín súrefni og næringarefni og önnur nauðsynleg efni rétt eins og blóðið gerir, þegar það streymir frá öðrum hlutum líkamans.

Varðandi Zamboni-kenninguna er mikilvægt að gera sér grein fyrir því, að bláæðar geta bæði verið þröngar og víðar, “og raunar er það álitamál hvað skuli kalla þröngar og víðar bláæðar”, segir Sverrir. “Miðað við tiltekin viðmiðunarmörk hefur komið í ljós, að á milli 30-40% MS sjúklinga er með frekar þröngar bláæðar miðað við það sem “normal-mörk” segja bætir Sverrir við.

Og hvað táknar það?

Mynd af heila“Fyrir mér segir það ekki nokkurn skapaðan hlut”, segir Sverrir. Þá sagði hann, að þetta hefði verið kannað hjá ákveðnum viðmiðunarhópi, sem ekki sé með MS og samkvæmt þeirri könnun falla um 28% í sama “þrengslaflokk”. Munurinn er þannig sáralítill, þ.e. 12%,.

“Við þekkjum hins vegar, að það koma stundum tappar í þessar bláæðar, eins og t.d. bláæðar í fótum, svo dæmi sé tekið, segir Sverrir. “Og þá lokast þær. Og ef ekkert rennur frá heilanum um þær myndazt bjúgur í heila. Það er alvarlegt vandamál og lífshættulegt”, segir Sverrir.

Nú er fyrst og fremst litið á MS sem taugasjúkdóm og þannig er kenning Zambonis talsvert á skjön við almennar kenningar um sjúkdóminn. Getur ekki verið, að kenning hans um bláæðaþrengsli sé meðvirkandi líkamsgalli, sem stuðli að MS?

“Jú, það má kannski segja það og okkur MS-læknum ber að hafa opinn huga. En eftir að hafa kynnt mér Zamboni-kenninguna hef ég takmarkaða trú á henni. Það er svo margt, sem mælir gegn henni. Sjálfur segi ég sem svo, að það þurfi öflug vísindaleg rök til að sannfæra mig um ágæti kenningarinnar. En þegar maður þekkir ákveðinn möguleika ekki til hlítar, þá vil ég ekki afneita honum. Það þarf að skoða allt mjög vel og ég tel mig þurfa að fá að vita meira”.

Það er að sjálfsögðu grundvallaratriði, að blóðflæðið í líkama okkar er stöðug hringrás vegna þess, að það er alltaf verið að flytja súrefni til vefjanna. Við lifum á því, ef svo má að orði komast. Þannig að ef blóð hætti að komast frá heilanum og það sem einu sinni hefur verið sent upp, situr bara kjurrt, þá myndum við hreinlega deyja, því heilinn fengi enga endurnýjun á súrefni og við myndum missa meðvitund og deyja.

“MS-sjúklingar gera sér að sjálfsögðu fulla grein fyrir mikilvægi súrefnisstreymis til heila og mænu, að þangað berist nægt súrefni, því annars myndi fólk bara lognast út af. Súrefnismettun væri ekki næg því það tækist ekki að endurnýja súrefnið nægilega. Í þessu ljósi er kenning Zambonis ákaflega einkennileg”, segir Sverrir Bergmann.

“Zamboni er fyrsti maðurinn, sem lætur sér detta þetta í hug,” segir Sverrir. “Ég legg áherzlu á, að fólk geri sér grein fyrir því að þessi kenning snýst ekki um að það berist ekki blóð til heilans. Ég er hræddur um, að flestir taki því þannig, að það vanti blóð, að það vanti súrefni, en það er öfugt. Kenningin segir, að blóðið fari ekki nógu hratt tilbaka því bláæðarnar séu of þröngar.”

Það sem Zamboni vill meina er, að efni í blóðinu, sem á ekki að vera okkur skaðlegt, heldur hið gagnstæða, sé of lengi í hringrásinni. Þá getur síazt of mikið af einhverju efni út í vefina. En hann hefur enga skýringu á þessu”, segir Sverrir Bergmann, taugalæknir.

halldorjr@centrum.is