Karfan er tóm.
- Sjúkdómurinn
- Lifað með MS
- Þjónusta
- Útgáfa
- Um félagið
- Styrkja starfið
- Vefverslun
Karfan er tóm.
Heiða Björg Hilmisdóttir, varaformaður MS-félagsins, var í gær valin varaformaður samtaka norrænna MS-félaga, NMSR (Nordisk MS Råd). Danmörk fer með formennsku næstu tvö árin eftir tveggja ára formennsku Finnlands. Ísland mun leiða norræna samstarfið að tveimur árum liðnum.
Á myndinni hér til hliðar má sjá Heiðu Björgu Hilmisdóttur (t.h.) með nýskipuðum formanni NMSR, Mette Bryde Lind frá Danmörku.
Norrænu félögin funduðu í gær í Dublin, samhliða fundi evrópskra MS-félaga, EMSP, sem haldinn var dagana áður. Dagskrá EMSP-fundarins var að venju fjölbreytt og metnaðarfull.
EMSP kynnti verkefni sem verið er að vinna að með atvinnulífinu til að opna möguleika á „intern ship“, þ.e. störfum fyrir ungt fólk með MS svo þau öðlist starfsreynslu en oft er erfiðast að fá fyrsta starfið. Vinnuveitendur munu fá ráðgjöf og „verkfærasett“ sem þeir geta notað til að gera vinnustaðinn að betri stað fyrir MS-fólk. Það væri t.d. með því að vinnuveitendur veiti einhvern sveigjanleika í vinnutíma, þeir komi upp hvíldaraðstöðu, gefi möguleika á því að breyta um vinnustellingar og margt annað sem ekki endilega kostar peninga en getur skipt máli.
Aðgengismál voru ofarlega á baugi á fundinum en gott aðgengi skiptir alla miklu máli, ekki aðeins fatlaða einstaklinga, heldur einnig fjölskyldur þeirra og vini. Kallað var eftir vefsíðum með upplýsingum um aðgengilega staði til að fara á og ferðast til, þar sem tekið væri m.a. tillit til aðgengi inn á staði, salernisaðstöðu o.s.frv., og vefsíðum með upplýsingum um líkamsrækt sem hentar fötluðu fólki.
Á norræna fundinum var m.a. lögð áhersla á unga fólkið og væntanlega samnorræna vefsíðu sem unnið er að. Sagt verður nánar af fundunum í MeginStoð sem gefið verður út n.k. haust.
Bergþóra Bergsdóttir