Tveir félagar, Ingi Þór Hafdísarson og Sigurður Heiðar Höskuldsson, hyggjast setja heimsmet í ballskák, “pool”- íþróttinni, næstkomandi mánudag þ. 5. apríl til að vekja athygli á MS-sjúkdómnum og safna áheitum í þágu MS-félagsins. Hvatinn til að spila pool lengur en nokkru sinni hefur verið gert, alls 72 klukkustundir, er sá, að vinur þeirra Brynjar Valdimarsson greindist nýverið með “multiple sclerosis”. Þeir félagar ætla að slá út Guinness-metið í Snóker- og poolstofunni í Lágmúla.

Fyrra heimsmetið sem skráð er í heimsmetabók Guinness er 53 klukkustundir og 25 mínútur.
Áformað er að spila pool samfleytt í 72 klukkustundir og hefst heimsmetstilraunin kl. 12.00 á hádegi mánudaginn 5. apríl og stendur hún fram til kl. 12.00 á hádegi fimmtudaginn 8. apríl.

Þeir félagar Ingi Þór og Sigurður Heiðar standa nú í ströngu við skipulagningu svo metið fáist skráð í Heimsmetabók Guinness , en til þess þarf að uppfylla mörg og ströng skilyrði. Eitt skilyrðanna er að óháð vitni og tímaverðir sitji yfir þeim. Áhugasamir sjálfboðaliðar eldri en 18 ára mega gjarnan hafa samband við MS-félag Íslands til þess að heimsmetstilraunin gangi snurðulaust fyrir sig.

Bein útsending verður á netinu allan tímann á www.pool.is og stofnuð hefur verið Facebook síða: ,,Heimsmetstilraun Sigurðar Heiðars og Inga Þórs” (rúmlega 800 aðdáendur nú þegar) og er fólk hvatt til að skrá sig.

Ýmis fyrirtæki hafa lagt málefninu lið, s.s. Henson sem útvegar galla, Serrano, BK kjúklingar og Bananar ehf. o.fl. útvega mat og Sportsól, sólbaðsstofan Grænatúni, sér um að þeir séu brúnir og flottir þegar herlegheitin fara fram.

Áheitasöfnun
Með heimsmetstilrauninni vilja þeir pool-félagar gefa fólki kost á að heita á sig og renna öll áheit á kappana óskipt til MS-félags Íslands.

Áheitasöfnunin fer fram í síma 568 8620 (milli 10 og 15 virka daga) og með tölvupósti á msfelag@msfelag.is en einnig verður hægt að skrá áheit á staðnum.

Gefa þarf upp: Nafn, heimilisfang, kennitölu og upphæð og greiðslumáta. Hægt er að greiða með kreditkorti (gefa upp kortanúmer og gildistíma) eða fá sendan greiðsluseðill.

Einnig er hægt er að millifæra á reikning MS-félagsins nr. 0115-26-102713 - kennitala 520279-0169. Kvittun óskast send á msfelag@msfelag.is.

Nánari upplýsingar um heimsmetstilraunina og áheitasöfnunina er hægt að nálgast hjá:

Berglindi Ólafsdóttur hjá MS-félaginu í síma 568 8620 /698 7940
Sigurði Heiðari Höskuldssyni í síma 772 8014

Því er beint til fjölmiðla að hafi þeir áhuga á að hitta á þá félaga á meðan á heimsmetstilrauninni stendur, þarf að skipuleggja það fyrirfram. Einungis er leyfilegt að ræða við þá í fyrirfram skipulögðum pásum, segir Berglind framkvæmdastjóri MS-félagsins og engar truflanir eru leyfðar á meðan þeir spila, skv. kröfum Heimsmetabókar Guinness.

- hh