Þann 1. september hófst í MS Setrinu vetrardagskrá Yogahópsins undir stjórn Birgis Jónssonar, Ananda Yogakennara MS-félagsins. Yogahópurinn kemur saman til æfinga á mánudögum og miðvikudögum kl. 16.15-17.30 og laugardögum, bæði kl. 9-10.30 eða kl. 10.30-12:00. Vinsældir yogatímanna eru miklar og hafa stóraukizt í haust. Fyrir sumarfrí taldi hópurinn 7 manns en nú í haust hafa 14 karlar og konur mætt í yogatímana. Yogað hefur staðið í 9 ár og er lífsseigasta námskeiðið á vegum MS-félagsins.

Næsti tími verður á morgun, miðvikudaginn 15. september, og geta þeir sem áhuga hafa á að hefja andlega og líkamlega þjálfun hjá Birgi mætt beint í tíma.

Iðkendur Yoga segja MS-vefnum, að æfingarnar henti ákaflega vel og vitna til þess, að líkamleg heilsa og þrek stórbatni að ónefndri andlegri ró, eðlilegum fylgifiski Yoga. Þá benda þátttakendur gjarnan á, að þeir “ánetjist” Yoganu og taka fram, að Birgir Jónsson kunni sérstaklega vel til verka við að þjálfa MS-sjúklinga enda hafa námskeið hans hjá MS-félaginu staðið í nærfellt áratug og hafa flestir í Yogahópnum mætt linnulaust öll þessi ár.

Í frétt um Yogað hér á vef MS-félagsins í fyrra sagði:

“Í áranna rás hefur komið í ljós, að það hefur reynzt sumum erfitt skref að hefja yoga-endurhæfingu, en þegar MS-greindir hafa komizt upp á lagið hafa yogatímarnir orðið ómissandi þáttur í heilsueflingu þátttakendanna.

Eitt af því sem geinir Ananda Yoga frá öðru Yoga er að mikil áherzla er lögð á styrktaræfingar og ekki síður slökun, sem gera námskeið Birgis sérstaklega hentug fyrir MS-greinda einstaklinga.”

Í viðtali við MS-vefinn sagði Birgir Jónsson, að Ananda Yoga hefðin ( www.ananda.org ) hentaði einkar vel fyrir MS-sjúklinga. “Það góða við þessa hefð er, að samkvæmt henni er gætt mikillar nákvæmni og varkárni. Þess vegna er hver yogatími hjá okkur nær ein og hálf klukkustund til þess að við getum farið aðeins hægar og nákvæmar í æfingarnar.”

Birgir sagði, að tímarnir hjá honum skiptust í grundvallaratriðum í tvo þætti. Annars vegar “notum við styrktaræfingar og teygjur til að vinna á líkamanum, jákvæðar staðhæfingar og lærum slökun.” Hins vegar er lögð rík áherzla á öndun. “Ég kenni þátttakendunum að anda djúpt og ná tökum á fullri yogaöndun. Þegar nemarnir hafa náð tökum á þessari öndunartækni reyni ég að byggja öndunina inn í sjálfar æfingarnar.”

Þá heldur Birgir jafnframt stöku sinnum fyrirlestra um ýms efni sem tengjast yogaiðkun og hugsanagangi þeirra sem iðka yoga. “Jafnframt er nokkrum tíma varið í að sitja og ræða málin, en í minni hópum get ég fylgt hverjum og einum þátttakanda eftir af meiri nákvæmni og á persónulegri hátt,” sagði Birgir Jónsson, Ananda Yogi MS-félagsins í samtali við MS-vefinn á dögunum.

Nánari upplýsingar um yoganámskeið Birgis fást á skrifstofu MS-félagsins í síma 586 8620 eða með því að senda fyrirspurn í tölvupósti á netfangið msfelag@msfelag.is. Þá veitir Birgir sjálfur upplýsingar um námskeiðið í síma 895 9454. Einnig er stutt yfirlit um skráningar á yoganámskeiðið og önnur námskeið HÉR.

halldorjr@centrum.is