Enn á ný ætlar Anna Sigríður Sigurjónsdóttir að hlaupa fyrir MS-félagið ásamt hlaupafélögum sínum og öðrum sem hafa áhuga á að hlaupa með. Enn er hægt að skrá sig til þátttöku. Hlaupið verður norður Kjöl og suður Sprengisand dagana 7. - 15. júlí nk. Leiðin er 397 km á lengd og verður því daglega hlaupið nær heilt maraþon á þessum 9 dögum.

Með Önnu Sigríði í för verða hlaupafélagar hennar og vinkonur úr Grindavík, þær Christine Bucholz og María Jóhannesdóttir.

Christine hljóp einmitt með henni 166 km í ofurhlaupinu Ultima Frontera í Andalúsíu á Spáni til styrktar MS-félaginu í október í fyrra.

Lagt verður af stað eftir hádegi 7. júlí frá Gullfossi. Söngkonan, hin unga og glæsilega Unnur Eggertsdóttir, syngur fyrir hlaupara og gesti áður en lagt verður af stað. Félagar MS-Setursins ætla að fjölmenna í hina árlegu sumarferð sína og hvetja hlauparanna af stað frá Gullfossi.

Það er hægt að taka þátt í hlaupinu með því að hlaupa, ganga eða hjóla lengri eða styttri vegalengdir og eru allir velkomnir að taka þátt.  Til að skrá sig og fá nánari upplýsingar um hlaupið er hægt að hafa samband við Sólveigu í síma 898 6162 eða Önnu Sigríði í síma 866 4567. Þær hafa einnig opnað vefsíðu á Fésbókinni Hlaupið fyrir MS

Hægt er að heita á hlauparanna eða styrkja málefnið með því að leggja framlög inn á reikning MS-félagsins 115-26-052027, kt. 520279-0169.

Anna Sigríður hefur kynnt hlaupið í viðtölum við Sirry á RÚV2 og á Bylgjunni.

Anna Sigríður, sem sjálf hefur sigrast á krabbameini, hefur mikinn skilning á MS-sjúkdómnum en systir hennar, Elísabet, er með MS.

Á myndinni með fréttinni má sjá Christine, Maríu og Önnu Sigríði.

 

 

MS-félagið þakkar Önnu Sigríði og félögum hennar stuðninginn

og óskar þeim og öðrum hlaupurum góðrar ferðar.

 

 

BB