Í morgun afhenti Gísli V. Halldórsson MS-félaginu 434.646 kr. sem söfnuðust í afmælishófi í tilefni 70 ára afmælis hans 19. september. Berglind Guðmundsdóttir, formaður, tók við hinni höfðinglegu gjöf fyrir hönd félagsins. Gísli afhenti félaginu þó ekki eingöngu peningagjöf heldur einnig forláta söfnunarbauk til eignar sem hann hafði látið hanna og smíða af tilefninu. Málefni MS-félagsins eru Gísla einkar hugleikin en tengdasonur hans, mágur og hans sonur eru allir með MS-sjúkdóminn.

Gísli var ákveðinn í því að afþakka allar afmælisgjafir og við undirbúning fjölskyldunar fyrir afmælið kom upp sú hugmynd að gera einhvern grip eða söfnunarbauk sem hafa mætti frammi í afmælinu.

Gísli fékk Hlyn Ólafsson, tengdason sinn sem er í námi í byggingafræði, til að hanna og gera teikningu að veglegum söfnunarbauk. Síðan fékk Gísli Borgfirðingana Ingólf Eiríksson til að smíða gripinn eftir teikningunni, Pétur Jónsson til að sprauta hann og Björk Jóhannsdóttur til að skreyta. Öll gáfu þau vinnu sína af miklu örlæti. Óhætt er að segja að útkoma samvinnu allra þeirra sem að komu er virkilega fallegur söfnunarbaukur sem heldur betur stendur fyrir sínu.

 

Með Gísla í för í morgun voru eiginkona hans, Guðrún Birna Haraldsdóttir, dóttir þeirra Sigrún Halla Gísladóttir, tengdasonurinn Ronny Mathiasen og barnabarnið Sebastian Gísli.

 

 

Eins og áður segir afhenti Gísli MS-félaginu söfnunarbaukinn til eignar. Ef fleiri skyldu hafa hug á því sama og Gísli er velkomið að fá söfnunarbaukinn til afnota.

 

 

MS-félagið óskar Gísla V. Halldórssyni til hamingju með stórafmælið

og þakkar honum, fjölskyldu hans og vinum kærlega fyrir hug þeirra í verki til félagsins.