Traust til fagfólks á tímum COVID-19

 

Á tímum kórónuveirunnar skiptir miklu máli að þeir sem stýra aðgerðum hafi traust almennings. Við Íslendingar höfum sem betur fer borið gæfu til þess að treysta fagfólki fyrir að vera best til þess fallið að meta þessar erfiðu aðstæður og hvernig eigi að bregðast við þeim. Við sem erum með MS-sjúkdóminn þekkjum að það skiptir miklu máli að bera traust til þeirra lækna og fagfólks sem við leitum til. Við förum langflest eftir leiðbeiningum um meðferð s.s. hvaða MS-lyf er talið best miðað við framgang sjúkdóms okkar. Við treystum fagfólki til að lesa úr rannsóknarniðurstöðum og hvernig er skynsamlegt að bregðast við þeim. Við skiljum að fagfólki er betur treystandi en okkur sjálfum í þessum efnum. Við vitum samt að það er margt sem það veit ekki um MS-sjúkdóminn. Þrátt fyrir það þá treystum við því til að taka ákvarðanir miðað við nýjustu rannsóknir og bestu vitund. Hér er hægt að finna góða samsvörun við það ástand sem nú ríkir í þjóðfélaginu. Við treystum þeim sem stýra aðgerðum að taka upplýsta ákvörðun miðað við nýjustu rannsóknir og reynslu annarra af þeim vágesti sem nú herjar á mannkynið.

Við þekkjum líka af eigin raun hvað skiptir miklu máli að temja okkur langlundargeð og þrautseigju. Þetta höfum við lært á því að vera með langvinnan sjúkdóm sem fylgir okkur út ævina. Við höfum jafnframt mikla reynslu af að glíma við óvissuna sem sjúkdómnum fylgir. Sækjum í þá reynslu okkar á tímum COVID-19. Notum hana til að taka einn dag í einu og takast á við óvissuna sem þessu ástandi fylgir. Við þekkjum að hafa úthald í langtíma verkefni og sækjum í þolgæði okkar til að standa þennan tíma af okkur.

Hugsanlegt er að þeir sem stýra aðgerðum stígi feilspor. Þá hvet ég ykkur til að sýna umburðarlyndi og missa ekki traustið á þá sem stjórna ferðinni í COVID-19 faraldrinum hér á landi. Við þurfum þó ávallt að nota gagnrýna hugsun þegar við metum menn og málefni. Í mínu tilfelli þá hugsa ég til alls þess heilbrigðisstarfsfólks sem hefur reynst mér og mínu fólki vel á erfiðum stundum. Einu sinn var eitt af börnunum mínum að koma úr stórri aðgerð. Við fylgdumst með lífsmörkum barnsins á vöknun og varð mér fljótlega ljóst að ekki var allt eins og það átti að vera. Flöktandi lífsmörk í nokkrar klukkustundir leiddu til rannsóknar sem sýndi fram á innvortis blæðingu. Sömu læknar sem höfðu skorið barnið mitt snemma morguns voru kallaðir út rétt fyrir miðnætti til að skera barnið upp aftur og koma í veg fyrir frekari blæðingu. Ég hafði ekkert val annað en að treysta í annað sinn sömu læknum fyrir barninu mínu. Ég tók meðvitaða ákvörðun um að gera það og horfði á barnið mitt í annað sinn á sama sólarhring fara í aðgerð hjá sömu læknum. Eftir rúmlega fjögurra tíma aðgerð kom í ljós að komist hafði verið fyrir frekari blæðingu. Læknarnir sögðu frá mistökum sínum og báðust velvirðingar á þeim. Ég notaði Berglind Jensdóttirgagnrýna hugsun og niðurstaða mína var að stíga til hliðar og setja traust mitt á aðra og fyrirgefa. Mér var ljóst að fagfólkið vissi betur en ég og hafði forsendur til að komast að niðurstöðu um hvað best var að gera. Þarna treysti ég best þeim sem gerðu mistökin til að laga þau. Ég lærði mikið af þessari reynslu. Hana nýti ég mér í dag til að búa mig undir að ef einhver mistök verða gerð í viðureign fagfólks við COViD-19 missi ég ekki traust mitt á faglegt starf þeirra og tilmæli. Ég hvet ykkur til að gera það sama ef til þess kemur.

 

Kærleikskveðja,

Berglind Jensdóttir

Sálfræðingur MS-félags Íslands