Margir MS-greindir geta fundið fyrir íþyngjandi þreytu sem ekki er útskýrð með eðlilegri þreytu eftir áreynslu eða erfiðan dag. Þreytan hverfur yfirleitt ekki eftir stutta hvíld og er ekki auðveldlega hrist af sér.

Talað er um MS-þreytu. Hún er talin vera sambland hægfara, ónámkvæmra taugaboða og vöðvaslappleika en ýmislegt annað getur þó haft áhrif á eða orsakað þreytu, s.s. minni hreyfing, þunglyndi, sýkingar, svefnleysi og lyf. Mikil þreyta er því ekki alltaf sjúkdómnum um að kenna.

Eins og með önnur einkenni, hefur MS-þreyta mis mikil áhrif á daglegt líf einstaklingsins.

MS-þreyta getur verið annað hvort líkamleg eða hugræn eða bæði samtímis. Hafa skal í huga að hugræn þreyta er ekki það sama og að tapa andlegri færni eða minni en hins vegar getur MS-þreytan haft áhrif á skammtímaminnið, einbeitingu og orðanotkun.

 

Í rannsókn sem kynnt var í vefútgáfu Multiple Sclerosis Journal nú í sumar, var gerð tilraun á MS-greindum og heilbrigðum einstaklingum til að kanna hvort hægt væri að minnka hugræna þreytu með æfingum sem fælu í sér fyrirfram ákveðinn hvata. Niðurstöðurnar sýna, svo ekki verður um villst, að eigi einstaklingur von á einhvers konar umbun fyrir það sem hann er að gera, minnkar þreyta hans.    

 

Hvatinn að rannsókninni

Í tilteknu svæði heilans, sem á ensku kallast frontostriatal circuits, eru taugabrautir sem á einföldu máli má segja að tengi saman ýmis svæði heilans sem hafi áhrif á hreyfingu, hugræna færni og atferli.

Frá eldri rannsóknum eru þekkt tengsl frontostriatal circuits við hugræna þreytu. Eins er þekkt frá rannsóknum að heilbrigður einstaklingur þreytist við að framkvæma verkefni sem tengjast hugrænni færni, en séu honum boðnir peningar að launum, minnkar þreyta hans.  

 

Markmið

Að kanna hvort örvun frontostriatal circuits minnki hugræna þreytu með því að láta MS-greinda, og heilbrigða einstaklinga til samanburðar, taka þátt í verkefni þar sem peningaverðlaun eru í boði.

 

Rannsóknin

Þátttakendur í rannsókninni voru 33 konur; 19 MS-greindar á síðustu 4 til 27 árum (17 með MS í köstum, ein með frumkomna og ein með stöðuga versnun) og 14 heilbrigðar konur.

Þátttakendur voru prófaðir á tvo vegu; annars vegar þegar þeir voru að spila þar sem peningaverðlaun voru í boði (nokkrir dollarar), ef þeir myndu vinna, og hins vegar þegar þeir spiluðu þar sem engin verðlaun voru í boði – aðeins ánægjan. Þátttakendur áttu að giska á spil (úr spilastokki) og höfðu til þess mismunandi tíma.

Til að kanna áhrif þessara tveggja viðfangsefna á virkni frontostriatal circuits voru teknar sneiðmyndir af heila þátttakenda á meðan að þeir tókust á við verkefnin en að auki fengu þátttakendur spurningarlista til að útlista þreytutilfinningu sína og líðan að loknu hvoru verkefni. 

 

Niðurstaða

Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu fram á að væntingin um fjárhagslegan ávinning minnkaði hugræna þreytu allra þátttakenda, þ.e. bæði hinna MS-greindu sem og hinna heilbrigðu.

Í ljós kom að markverður munur var á virkni hjá öllum þátttakendum á því hvort þeir spiluðu upp á vinning eða bara ánægjunar vegna.

Hjá þeim sem spiluðu upp á vinning kom í ljós að þreytan minnkaði sem bendir til þess að æfingar eða aðgerðir sem hvetja einstaklinga til að ná fyrirfram ákveðnu markmiði sem fela einhvern hvata í sér, getur verið árangursrík nálgun við að draga úr þreytu.

Að framansögðu er ljóst að lyf er ekki eina meðferðin við hugrænni þreytu. Skemmtilegir leikir eða verkefni geta verið málið og auðvitað þarf „gulrótin“ ekki að vera fjárhagsleg, eins og í þessari rannsókn, heldur getur allt eins verið um að ræða keiluferð, gott að borða eða eitthvað annað gaman og gott.

 

 

Heimildir hér, hér og hér

Mynd: Creaive Common leyfi

Bergþóra Bergsdóttir

 

 

Fróðleiksmolar:

  • MS-þreyta er ekki auðveld viðfangs, sjá hér 
  • MS-þreyta er engin venjuleg þreyta. Fáðu hér góð ráð., sjá hér