MS-félag Íslands mun fara með formennsku í NMSR, Nordisk MS Råd, næstu tvö árin en NMSR er samstarfsvettvangur norrænu MS-félaganna. Við formennsku tók Heiða Björg Hilmisdóttir, varaformaður MS-félagsins, sem verið hefur glæsilegur fulltrúi í erlendu samstarfi félagsins á undanförnum árum. Heiða hefur góða þekkingu á MS-sjúkdómnum, sérstaklega þegar kemur að ungmennum og ungu fólki með MS, ásamt því að þekkja vel til málefna fatlaðs fólks. Hún brennur fyrir mörgum góðum málum sem hún hefur komið af stað og í gegn hjá NMSR.

Formannsembættið er mikilvægt embætti því formaðurinn ber ábyrgð á samstarfi landanna, hann stýrir málefnum sem tekin eru fyrir í ráðinu og fer með fundarstjórn.

 

Ritari ráðsins er Helga Kolbeinsdóttir en hún var ráðin til starfa sl. vor. Starf hennar fyrir NMSR felst í undirbúningsvinnu fyrir fundi, umsjón með verkefnavinnu ungra fulltrúa, bókhaldsvinnu og fundargerðum. Að auki mun hún halda utan um nýtt verkefni, jafningjastarf, sem kynnt verður nánar síðar.

 

Meðlimir NMSR eru fulltrúar frá MS-félögum á Íslandi, Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi. Fundir eru haldnir tvisvar á ári; á vorin í tengslum við fund EMSP (samtök evrópskra MS-félaga) og á haustin í einhverju Norðurlandanna. Á milli funda er einnig mikið um samskipti á milli félaganna.

 

Markmið NMSR er að auka og efla samráð og samstarf meðal MS-félaga á Norðurlöndum.

 

Á meðf. mynd má sjá þær Heiðu Björgu (t.v.) og Helgu (t.h.)

 

 

BB