Á miðvikudaginn, þ. 26. janúar (á morgun) fær MS-félagið góða heimsókn. Þá kemur á fræðslufund til okkar dr. Sigmundur Guðbjarnason frá SagaMedica, en fyrirtækið hefur sérhæft sig í rannsóknum á íslenzkum lækningajurtum og framleiðslu á hágæðanáttúruvöru úr þeim. Þekktasta framleiðsluvara SagaMedica eru Angelica-töflurnar, sem njóta mikilla vinsælda. Fræðslufundurinn verður að Sléttuveginum og hefst kl. 18 og stendur til 19:30.

Á fræðslufundinum, sem verður í MS-húsinu að Sléttuvegi 5, mun dr. Sigmundur einkum fjalla um Omega 3 og D-vítamín og jafnframt víkja að mataræði almennt. Allir eru velkomnir á fundinn og verður létt snarl á boðstólum. Húsið verður opnað hálfri klukkustund áður en formleg dagskrá hefst.

Fyrirtækið SagaMedica á sér alllanga sögu og hefur skipað sér sess á sviði rannsókna og framleiðslu á íslenzkum lækningajurtum. SagaMedica hefur sérhæft sig í rannsóknum á íslenzkum lækningajurtum og hefur fyrirtækið rannsakað um helming þeirra áttatíu
lækningajurta sem fyrirfinnast í íslenskri náttúru.

Á heimasíðu SagaMedica, www.sagamedica.is, segir m.a. að ætihvönn, sem nefnd er Angelica archangelica á latínu sé “ein merkilegasta lækningajurt Íslandssögunnar og vörur okkar byggjast að miklu leyti á henni. Rannsóknir hafa leitt í ljós mikinn fjölda lífvirkra efna bæði í laufum og fræjum plöntunnar”.

Um þessi efni segir, að þau hafi áhugaverða eiginleika hvað varði ýmsa sjúkdóma, eins og tíð þvaglát, veirusýkingar, kvíða og minnistap.

MS-fólk, aðstandendur og áhugafólk er hvatt til að mæta á þennan fyrsta fræðslufund MS-félagsins á árinu kl. 18-19:30 á morgun.

halldorjr@centrum.is