Alþjóðasamtök MS-fólks, MSIF, tileinkuðu ungu fólki á aldrinum 18-35 ára janúarhefti sitt, MS in focus.

 

Mikinn og fjölbreyttan fróðleik er að finna í blaðinu. Fjallað er um leiðina að sjálfstæðu lífi, sjálfsmynd ungs fólks, það að vera kærasta eða kærasti með MS, menntun, umönnun, hvað hafa þarf í huga þegar stofnað er til fjölskyldu, heilbrigt líf, lyf og meðferðir, börn með MS, frásagnir ungs fólks með MS, hvernig MS-félög víða um heim styðja við bakið á sínu unga fólki og niðurstöður netkönnunar þar sem meira en 4.600 ungir með MS tóku þátt.

 

Algengast er að fólk fái MS-greiningu á aldrinum 20–40 ára en margir muna þó eftir einkennum miklu fyrr þegar hugsað er til baka. Með meiri þekkingu á sjúkdómnum og framþróun í tækni sem gerir greiningu öruggari eru einstaklingar nú greindir mun fyrr. Allt niður í smábörn hafa verið greind með MS-sjúkdóminn.

 

Eðlilega eru áhyggjur gagnvart framtíðinni mismunandi eftir því á hvaða aldri maður er. Unglingar hugsa helst um hvernig félagslífið muni þróast og hvernig best sé að takast á við nám við breyttar aðstæður á meðan ungt fólk hugsar um stofnun fjölskyldu og þátttöku í atvinnulífinu. En það er eins með MS-fólk og alla aðra – við höfum öll möguleika á góðu lífi – við þurfum bara að læra á okkur sjálf, hvað við getum og hvað við þurfum að taka tillit til. Við erum ekki ein og getum lært svo margt af reynslu annarra í sömu stöðu. Tímarit eins og þetta sem tileinkað er ungu fólki er því góð lesning fyrir allt ungt fólk með MS og aðstandendur þeirra.

 

Því miður er blaðið ekki gefið út á íslensku en það er hinsvegar að finna á ensku hér

 

BB