Jólakort MS-félagsins í ár skartar einstöku listaverki eftir Eddu Heiðrúnu Backman og er málað með pensil í munni. Verkið ber nafnið „Þrenning“

Myndin sem er máluð nú á haustmánuðum er einstaklega falleg og er af fuglafjölskyldu í fögru umhverfi. Þar kemur fram fjólublár litur MS-félagsins sem einnig er litur aðventunnar. Boðskapurinn er augljós - að umvefja hvort annað í kærleika og efla fjölskyldubönd og uppfylla jörðina.

Edda Heiðrún er löngu landsþekkt leikkona og leikstjóri. Síðla árs 2008 ákvað hún að takast á við nýja listgrein og hóf að mála með pensil í munni af miklum áhuga og vaxandi listfengi.

Hún hefur síðan spreytt sig á olíumálverkum, vatnslitaverkum og málun á gler og keramik. Mörg verka sinna vinnur hún í MS Setrinu.

Edda Heiðrún er félagi í alþjóðlegum samtökum: The Mouth and Foot Painters Association, en þar hlaut hún inngöngu haustið 2009. Leiðbeinandi hennar og aðstoðarmaður við listmálun er Derek K. Mundell.


Þann 1. desember næstkomandi opnar Edda Heiðrún sýningu í Þjóðmenningarhúsinu. Á sýningunni verða bæði olíumyndir og vatnslitamyndir. Sýningin stendur í 3 mánuði og verður opin alla daga milli kl. 11 og 17.

MS-félag Íslands er hagsmunafélag MS-fólks. Félagið býður upp á margvísleg námskeið fyrir fólk með sjúkdóminn og aðstandendur þess, gefur út fjölbreytt fræðsluefni og býður upp á reglulega fræðslufundi um hvaðeina sem tengist sjúkdómnum. Ýmis þjónusta er einnig veitt á vegum félagsins s.s. félagsráðgjöf, yogatímar, líkamsþjálfun ofl.

Sala jólakortana er einkar mikilvæg tekjulind félagsins.

Jólakortið er 12x15 cm á stærð og fæst bæði með og án textans „Gleðileg jól og farsælt komandi ár“. 

8 kort í pakka kosta 1.000 kr. og fást á skrifstofu félagsins en einnig hjá sölumönnum okkar um allt land.

Vinsamlega hafið samband í síma 568 8620 eða með tölvupósti á msfelag@msfelag.is.