Í tengslum við sumarhátíð MS-félagsins miðvikudaginn 27. mai n.k. (kl. 16-18) verða fimm verslanir; Eirberg, Fastus, Rekstrarland, Rekstrarvörur og Stoð með sýningu á stórum sem smáum hjálpartækjum. Það er til ótrúlega mikið úrval af hjálpartækjum og mörg eru þau niðurgreidd af Sjúkratryggingum fyrir þá sem þeirra þurfa með. Einhverjum gæti þótt erfitt að horfast í augu við að þurfa að nota hjálpartæki en gott er að hafa í huga að þau eru til þess að létta daglegt líf og gera fólki kleift að hafa orku eða getu til að gera meira en ella.

 

Á vefsíðu MS-félagsins er að finna ýmsar greinar um hjálpartæki í boði og er um að gera að spyrjast fyrir um þau sem áhugi er fyrir á kynningunni.

Einnig er hægt að fara inn á vefsíður verslananna til að leita upplýsinga:

·         Eirberg

·         Fastus

·         Rekstrarland

·         Rekstrarvörur

·         Stoð

 

Önnur fyrirtæki:

·         Öryggismiðstöðin

·         Össur

 

Hægt er að leita til sjúkraþjálfara og iðjuþjálfara um val á hjálpartækjum og þeir geta einnig sótt um hjálpartæki til Sjúkratrygginga.

 

Dæmi um hjálpartæki eru sérsmíðaðar koltrefjaspelkur sem eru mjög hentugar sem stuðningur fyrir þá sem draga fót/fætur við gang. Þær falla vel að fæti og sjást því ekki undir buxum en geta lagað göngulag til muna, lengt göngugetu og forðað ójöfnu álagi á grind, vöðva og liðbönd. Þvagbindi fyrir konur og karla eru ósýnileg hjálpartæki sem gera búðarferðir og ferðalög mun afslappaðri og þægilegri þar sem ekki þarf alltaf að svipast um eftir salerni. Léttur hjólastóll eða (litlar) rafskutlur gera útivist og ferðalög mun þægilegri, ekki aðeins fyrir notandann heldur einnig fyrir samferðafólkið.

Hjálpartæki eru margvísleg; hjólastólar og gönguhjálpartæki, fótspelkur og bæklunarskór, þvagbindi, þvagleggir og þvagpokar, raförvunartæki vegna vandamála í grindarbotni, bað- og salernistæki, vinnustólar til að létta störfin t.d. í eldhúsinu, sjúkrarúm, fólkslyftarar, öryggiskallkerfi, rafdrifnir hurðaopnarar, rampar og fleira til aðlögunar að húsnæði.

Einnig er til mikið úrval smáhjálpartækja, t.d. fyrir tölvuvinnu, föndur, hannyrðir, eldhús og bað.

Ekki síst eru til smátæki og tól til líkamsþjálfunar heima við.

 

FÉLAGSMENN OG VELUNNARAR!

VERIÐ VELKOMIN Á SUMARHÁTÍÐINA!