“Þessi námskeið hafa borið góðan árangur,” segir Margrét Sigurðardóttir, félagsráðgjafi, sem er í hópi fimm sérfræðinga, sem standa að sérstöku helgarnámskeiði fyrir einstaklinga, sem eru nýgreindir með MS, “multiple sclerosis”. Námskeiðið er ætlað fólki, sem býr á landsbyggðinni og verður helgina 23.-24. janúar næstkomandi. Mikilvægt er, að fólk hafi samband við skrifstofu MS-félagsins sem fyrst.

Námskeiðið verður haldið í húsi MS-félagsins að Sléttuvegi 5 og er þátttakendum að kostnaðarlausu. Á dagskrá verða umræður um tilfinningaleg viðbrögð við sjúkdómsgreiningunni og áhrif MS á daglegt líf. Kynntar eru leiðir til að aðlagast betur og efla styrk þátttakenda. Markmiðið með námskeiðinu er að fræða þátttakendur um MS-sjúkdóminn, gefa leiðbeiningar um hvernig takast eigi við sjúkdóminn og opna vettvang fyrir nýgreinda til að kynnist öðru fólki með sjúkdóminn.

Margrét Sigurðardóttir, sem skipuleggur námskeiðið, er félagsráðgjafi á Landspítalanum-Grensási, MS-dagvist og MS-félagi Íslands og hefur sérhæft sig í MS-sjúkdómnum og endurhæfingu MS-sjúklinga.

Til nýgreindra MS-sjúklinga teljast yfirleitt á þessum námskeiðum þeir, sem hafa greinzt með MS á s.l. 6 mánuðum til þriggja ára. Margrét tók fram, að yfirleitt væri ekki farið að gæta mikillar fötlunar, þegar hér væri komið sögu.

Margrét sagði í viðtali við MS-vefinn, að það væri ákaflega mikilvægt fyrir MS-sjúklinga, ekki sízt nýgreinda af landsbyggðinni, að geta rætt við aðra MS-greinda um sjúkdóminn, einkenni hans og skiptast á upplýsingum um reynslu sína. Í því einu væri fólginn mikill stuðningur og hætta á einangrun sjúklinganna minnkaði.

Í sérfræðingateyminu, sem heldur námskeiðið, eru eftirtaldir: Margrét Sigurðardóttir, félagsráðgjafi, Sóley G. Þráinsdóttir, læknir, Sigþrúður Ólafsdóttir, hjúkrunarfræðingur, Heba Magnúsdóttir, sjúkraþjálfari og Kristbjörg Rán Valgarðsdóttir, iðjuþjálfari. Þessir sérfræðingar munu miðla af þekkingu sinni auk þess, sem kennd verður slökun.

Tvenn námskeið af þessum toga hafa verið haldin áður á s.l. 5 árum og tókust þau mjög vel.

Námskeiðið er haldið um helgina 23.-24. janúar n.k., eða frá föstudegi til laugardags (milli kl. 10.00 og 16.30 báða dagana). Fjöldi þátttakenda er 8-10.

Enn eru laus pláss á námskeiðinu. Skráning og upplýsingar í síma 568 8620 eða á Ingdis@msfelag.is. - hh