Verður þú stundum þreytt/ur í fótum, jafnvel alveg við það að gefast upp, en langar til að sjá og gera svo miklu meira? Lestu þá um þessa léttu og handhægu rafskutlu og um tilboð á rafskutlu og rafmagnshjólastól sem eru í gangi núna.

 

MS-félaginu barst ábending frá Brynju Margréti Kjærnested. Gefum henni orðið:

„Ég varð að setja hér slóð um rafskutlu sem ég pantaði mér frá Þýskalandi. Ég hef verið að leigja mér hefðbundnar skutlur sem fólk sem á erfitt með gang leigir á ferðalögum. Mér hefur fundist þær frekar þungar og ómeðfærilegar og langaði ekki að kaupa mér slíka þar sem erfitt væri að koma þeim ein fyrir í venjulegan bíl og ég væri því háð öðrum.

Ég fann síðan Travelsvoot rafskutluna sem vegur aðeins 12-15 kg með batteríum. Seljandinn sendir ekki til Íslands þannig að annað hvort þarf maður sjálfur að sækja til þeirra til München eða fá flutningafyrirtæki til að sækja skutluna fyrir sig. Ég fékk TVG að sækja fyrir mig og það gekk allt mjög vel. 

Skutlan sjálf kostaði um 2.500 evrur en hingað komin með flutningi og virðisaukaskatti var þetta í heildina um 400.000 kr. (verð á skutlunni inn í því).

Ég fór með skutluna til Berlínar í maí en ég flaug með Icelandair og fékk að hafa hana alveg að innganginum í vélina og fékk hana svo til mín við útganginn. Þessi ferð til Berlínar var alveg dásamleg. Ég fór út um alla borg og í fullt af búðum og mér fannst ég vera orðin aftur alveg fullkomlega sjálfstæð.

Í Berlín voru ferðamenn allstaðar úr heiminum að stoppa mig og spyrja hvar ég hefði keypt skutluna en þetta var allt fólk sem átti erfitt með gang sem var að spyrja.

Èg veit ekki hvort það sé hægt að fá skutluna niðurgreidda hjá Sjúkratryggingum Íslands. Þar sem ég er að vinna og hef ekki sótt um örorkumat þá kannaði ég það ekki.

Ég varð bara að senda ykkur þetta þar sem þessi skutla er algjör snilld. Sjá vefslóð á  Travelsvoot rafskutluna hér

Hún hentar bara þeim sem eiga erfitt með gang en ekki þeim sem eru með meiri fötlun.“

 

****

Bestu þakkir fyrir ábendinguna, Brynja Margrét :-)

 

****

Eirberg er með til sölu rafskutlu, Go-Go Elite 4, sem taka má sundur og koma fyrir í bíl og/eða taka með í ferðalagið.

Skutlan var til umfjöllunar í MS-blaðinu hér.  

Skutlan er nú á tilboðsverði á 189.800 kr. Í einhverjum tilvikum er hægt að sækja um greiðsluþátttöku SÍ með umsókn frá iðjuþjálfa, sjúkraþjálfara eða lækni.

Sjá nánari upplýsingar hér.

 

****

Á Hópkaup má fram til 15. júlí kaupa samanbrjótanlega Easy Touch D09 rafmagnshjólastóla á 249.000 kr.

Sjá nánari upplýsingar hér og hér 

 
****

 

Bergþóra Bergsdóttir, fræðslufulltrúi

 

Frekari fróðleikur: