Mikill seinagangur hefur verið á innleiðingu lyfsins Gilenya hér á landi og hefur MS-félagið barist fyrir því að flýta innleiðingu lyfsins fyrir þann hóp sjúklinga sem hefur þurft að hætta á Tysabri og bíður eftir Gilenya. Ekki var sótt um leyfi til að innleiða lyfið til Sjúkratrygginga Íslands fyrr en 14. júní sl. og gerðu SÍ þá ráð fyrir að ferlið gæti tekið um þrjá mánuði. Nú hafa hins vegar borist fréttir af því að óskað hafi verið eftir flýtimeðferð svo það geti átt sér stað fyrr, enda tíminn dýrmætur fyrir MS-sjúklinga.

Eins og við höfum fjallað um áður hefur verið mikill seinagangur á innleiðingu lyfsins Gilenya hér á landi. Nokkur hópur sjúklinga hefur þegar hætt á Tysabri samkvæmt læknisráði og bíður eftir Gilenya. Berglind Guðmundsdóttir, formaður MS-félags Íslands, segir í viðtali við Stöð 2 að hennar tilfinning sé sú að kostnaðarpólitík sé um að kenna. Hins vegar sé verðmunur á þessum tveimur lyfjum óverulegur, einkum ef tekið sé tillit til minni sjúkrahúskostnaðar við notkun á Gilenya. Berglind segir einnig að ekki sé eftir neinu að bíða, taka eigi lyfið strax í notkun. Alvarlegt sé ef fólk sé látið bíða eftir lyfjum við alvarlegum sjúkdómi.

Lyfjasvið Landspítala Háskólasjúkrahúss sendi ósk um innleiðingu lyfsins til SÍ þann 14. júní sl. Þá gerðu SÍ ráð fyrir að innleiðingarferlið gæti tekið þrjá mánuði, en skv. upplýsingum frá Velferðarráðuneytinu hefur LSH óskað eftir því við SÍ að málið hljóti flýtimeðferð. Þetta eru góðar fréttir, en þess er þó getið að beðið sé eftir viðbrögðum frá SÍ.

MS-félagið skorar á SÍ að flýta afgreiðslu málsins svo MS-sjúklingar þurfi ekki að bíða lengur í óvissu.

Talsvert var fjallað um málið í fréttum Stöðvar 2 í liðinni viku. Hér fyrir neðan má finna tengla á þá umfjöllun:

Frétt Stöðvar 2 frá 25. júní sl.
Viðtal Stöðvar 2 við Ingunni Jónsdóttur, kennara
Viðtal Stöðvar 2 við Steinunni Gunnarsdóttur, þroskaþjálfa
Frétt Stöðvar 2 og viðtal við Berglind Guðmundsdóttur, formann frá 29. júní sl.