Karfan er tóm.
- Sjúkdómurinn
- Lifað með MS
- Þjónusta
- Útgáfa
- Um félagið
- Styrkja starfið
- Vefverslun
Karfan er tóm.
Í morgun höfðu alls 9 manns fengið Tysabri. Stefnt er að því að afgreiða sjúklinga hraðar, allt að 4 á viku.
Í kjölfar mikillar umfjöllunar fjölmiðla um Tysabri-meðferð fyrir MS-sjúklinga hefur verið ákveðið að auka “afgreiðsluhraða” á taugadeild LSH. Í morgun, föstudaginn 8. febrúar, mættu þrír sjúklingar í meðferð og hafa þá alls 9 MS-sjúklingar fengið nýja lyfið. Hingað til hefur verið unnið samkvæmt þeirri óskráðu reglu, að tveir sjúklingar gætu fengið meðferð í hverri viku. Sigurbjörg Ármannsdóttir, formaður MS-félagsins kallaði þetta “seinagang” í útvarpsviðtölum.
Á taugadeildinni hefur verið fjallað á nýjaleik um fyrirkomulag Tysabrimeðferðar og er niðurstaðan sú, að stefnt er að því að taka að minnsta kosti 3 sjúklinga í meðferð á viku, sennilegast á föstudögum. “Allt minna finnst mér ekki mikið,” sagði Elías Ólafsson, yfirlæknir á taugadeildinni.
Elías hefur lýst yfir þeim vilja sínum, að hert verði á afgreiðslu á Tysabri fyrir MS-sjúklinga og hefur í samráði við starfsmenn deildarinnar ákveðið að reyna að taka fleiri sjúklinga á viku en tvo og leggja heilan dag undir verkið í hverri viku.
Haukur Hjaltason, taugasérfræðingur, sem, hefur umsjón með þessu verkefni, kvað ákaflega erfitt að nefna einhverja fasta sjúklingatölu sem hægt væri að afgreiða, en taldi ekki fráleitt að miða við 2-4 nýja sjúklinga á viku.
Þegar MS-vefurinn bar undir Elías hvort fráleitt væri að meðhöndla 5 sjúklinga á viku sagðist hann ekki geta staðhæft um það. “Kapp er bezt með forsjá,” “Við verðum að geta ráðið við þetta.”
Það sem einkum ræður hraða afgreiðslu lyfsins er slök aðstaða og plássleysi auk þess, sem þeir starfsmenn sem sinna þessu verkefni eru of fáir. Þá má ekki gleyma því, að taugadeildin hefur umfangsmikil verkefni á sinni könnu, sem einnig þarf að sinna.
Báðir töldu þeir Elías og Haukur jákvætt, að fjallað væri um nýja lyfið Tysabri opinberlega, en vöruðu jafnframt við því að það væri hafið til skýjanna sem eins konar “töfralyf”. - h