Árbæjarapótek hefur nú hafið sölu á lyfinu LDN hérlendis. Þessi áfangi er mjög athyglisverður, því um er að ræða annað apótekið í Evrópu sem tekur að afgreiða LDN. Íslenskir neytendur geta líka glaðst við þær fréttir að LDN er núna nær helmingi ódýrara en áður hefur verið. Mánaðarskammturinn frá Árbæjarapóteki kostar 3.800 kr. og er það afgreitt gegn lyfseðli frá lækni. Apótekið vinnur samsetningu lyfsins út frá sömu aðferðum og leiðandi LDN apótek í Bandaríkjunum. Lyfið er blandað á staðnum og afgreitt í fljótandi formi, 1 milligramm Naltrexone í millilítra og skammta sjúklingar sér sjálfir eftir læknisráði.

Mikill fjöldi íslenskra sjúklinga hefur undanfarin 2 ½ ár fengið LDN duft-hylki frá Skotlandi og hefur mánaðarskammtur lyfsins kostað þannig rúmlega 7.000 kr. með póstkostnaði og öllu. Sambærileg afgreiðsla á fljótandi LDN hefur einnig verið fáanleg í Skotlandi á nokkurn vegin sama verði og hér. En vegna þess að endingartími fljótandi lausnar er styttri en LDN dufthylkja, hafa Íslendingar ekki getað flutt inn fljótandi LDN með góðu móti sjálfir. Íslenskir neytendur geta því glaðst við þær fréttir að LDN er nær helmingi ódýrara hér, mánaðarskammturinn frá Árbæjarapóteki kostar 3.800 kr.

Hvað er LDN?
LDN er skammstöfun fyrir: Low Dose Naltrexone sem má þýða: Lág-skammta-Naltrexone. Litlir skammtar af lyfinu eru teknir rétt fyrir svefn. Nú er það oft notað við gigtarsjúkdómum, sjálfsofnæmissjúkdómum og taugahrörnunarsjúkdómum. Vísbendingar eru um að lyfið hjálpi við meðhöndlun ýmissa krabbameina. Naltrexone, virka efnið í LDN, var upphaflega þróað til að loka á endorfínviðtakendur í líkamanum til að hjálpa morfínefnafíklum úr ofskömmtunarástandi fíkniefna. Naltrexone hefur verið gefið í um 50 – 100 mg og viðurkennt af heilbrigðisyfirvöldum víða um heim til þessara nota í nokkra áratugi.

Aðrir eiginleikar lyfsins komu í ljós um það leiti sem einkaleyfi á Naltrexone var að renna út. Athugull læknir í New York, dr. Bernard Bihari, áttaði sig á að með notkun LDN í smáskömmtum 4,5 mg rétt fyrir svefn, var hægt að fá líkamann til að auka framleiðslu endorfína. Endorfín eru hormón sem líkaminn framleiðir og gegna hlutverki við að stýra ónæmiskerfinu í baráttu þess við sjúkdóma. Notkun á LDN í þessum tilgangi hefur síðan hægt og bítandi verið að breiðast út um hinn vestræna heim og þar sem Naltrexone er fyrir löngu viðurkennt lyf og mega læknar einnig ávísa því í þessum tilgangi.

Þúsundir sjúklinga fullyrða að LDN gegni veigamiklu hlutverki í betri heilsu þeirra. Sá góði árangur sem lyfið er þekkt fyrir í röðum upplýstra sjúklinga hefur samt ekki orðið til þess að lyfið fái almenna útbreiðslu. Það kemur mest til vegna þess að einkaleyfi lyfsins eru útrunnin, við það verður fjárhagsávinningur lyfjafyrirtækjanna enginn á því að fjármagna lokastigsrannsóknir. Engar slíkar lokastigsrannsóknir hafa verið tilkynntar þrátt fyrir baráttu sjúklinga og lækna fyrir því þau 20 ár sem liðin eru frá því að áhrif LDN ónæmiskerfis uppgötvuðust. Samheitalyfjafyrirtæki virðast heldur ekki hafa áhuga á LDN vegna þess að þessar rannsóknir eru ekki til staðar. Vegna þessarar stöðu er Naltrexone hinsvegar tiltölulega ódýrt.

Saga og rannsóknir á lág-skammta-Naltrexone (LDN)
Læknirinn Bernard Bihari MD starfaði árið 1985 við Downstate heilsugæslustöðina í New York og var upphafsmaður LDN meðhöndlunar. Bihari sem var athugull og vel menntaður læknir með gráður úr bæði Cornell og Harvard háskólunum. Hann hafði umsjón bæði með fíkniefnasjúklingum og HIV smituðum sjúklingum í Downstate. Bihari hafði einnig fylgst vel með þróun sem átti sér stað á lyfinu Naltrexone. Lyfjaeftirlit Bandaríkjanna hafði á þeim tíma vonast til þess að þetta lyf gæti komið að gagni við að halda heróínfíklum frá fíkn sinni. Lyfið reyndist ekki vel gegn því vandamáli, það þurfti um 50 mg. til þess að morfínefnin virkuðu ekki og í svo miklu magni skapaði lyfið spennu- og kvíðaástand hjá sjúklingum.

Bihari veitti því athygli að Naltrexone hafði eiginleika til að auka endorfínmagn í blóði. Þegar hann áttaði sig á því að AIDS sjúklingar hans höfðu einungis um 30% endorfíni í blóði miðað við heilbrigða einstaklinga fór hann að prófa lyfið til að hjálpa þeim að auka endorfínið. Rannsóknir dr. Biharis og niðurstöður á áhrifum lítilla skammta lyfsins á HIV smitaða sýndu ótrúlega góðan árangur af meðferðum hjá þeim sjúklingum (Sjá skýrslu unna upp úr fyrirlestri Biharis í Stokkhólmi árið 1988). Eftir þetta fór Bihari að prófa LDN gegn ýmsum öðrum sjúkdómum og gerði sér fljótlega grein fyrir því um hve breiðvirkt úrræði var að ræða. Bihari skráði áhrif lyfsins á marga einstaklinga með ólíka sjúkdóma sem leið betur ef þeir notuðu lyfið. Bernard Bihari lést 16. maí 2010.

Læknirinn dr. David Gluck starfaði um árabil samhliða dr. Bihari og var náin vinur hans. Gluck hefur um árabil haldið áfram starfi dr. Bihari einnig verið með frábært kynningar- og upplýsingstarf á vef sínum: www.lowdosenaltrexone.com  Dr. Gluck er sérfræðingur í forvarnarlækningum og hefur þá trú að LDN sé ein af merkustu uppgötvunum læknisfræðinnar undanfarin 50 ár. Með því að helga líf sitt þessari hugsjón hefur dr. Gluck stuðlað að því að þúsundir manna eignist mannsæmandi líf aftur og verið í einum af aðalhlutverkum LDN baráttunnar í heiminum. Lista yfir LDN rannsóknir má finna hér og sjá má forsíðu upplýsingavefs dr. David Gluck hér

LDN hópurinn á Íslandi hefur notið góðrar leiðsagnar á vef dr. Gluck. Hann tók vel í umleitan okkar um að koma LDN í sölu hérlendis og útvegaði apótekara með reynslu í LDN framleiðslu frá Bandaríkjunum til þess að ráðleggja með framleiðsluna á Íslandi. Það hefur ekki verið sjálfsagt að fá gott LDN erlendis en þessi hjálp dr. Gluck tryggði okkur fyrsta flokks vöru hérlendis.

Áhrif LDN á Svæðisgarnabólgu ,,Crohn´s sjúkdóm“
Þó að lokastigsrannsóknir á LDN hafi ekki farið fram er talsvert af frumrannsóknum sem staðfesta framúrskarandi öryggi lyfsins og benda eindregið til góðs árangurs LDN meðhöndlunar. Til dæmis hafa komið fram afgerandi niðurstöður í frumrannsókn á virkni lyfsins á svæðisgarnabólgu (Crohn‘s sjúkdóm). Þessi árangur ætti að vekja athygli sérfræðinga hérlendis á fullyrðingum sjúklinga um að lyfið verki einnig ótrúlega vel við meðhöndlun sáraristilbólgu (Colitis Ulcerosa) enda sjúkdómarnir báðir sjálfsofnæmissjúkdómar í þörmum. Einnig eru margar frásagnir um að lyfið hjálpi við meðhöndlun iðraólgu (Irritable Bowel Syndrome / IBS). Mikið hefur verið fjallað um LDN sem úrræði við meðhöndlun ótal sjálfsofnæmissjúkdóma og er áhugaverð í því samhengi að sjá þær vísbendingar um öryggi lyfsins sem koma fram í þessari frumrannsókn.

Vísindamenn í Pennsylvaníuháskóla tóku sig til árið 2006, undir forystu Jill P. Smith M.D. og framkvæmdu fyrstu forrannsóknina á áhrifum LDN á svæðisgarnabólgu. Niðurstöðurnar voru sláandi dæmi um áhrif LDN. Eftir 12 vikur kom fram rénun sjúkdómseinkenna hjá tveimur þriðju hluta þátttakenda og 89% upplifðu breytingu til hins betra.

Þessi frumrannsókn var birt í apríl 2007 útgáfu bandaríska meltingarfærafræðitímaritsins: American Journal of Gastroenterology, sjá hér.  Rannsóknin dró athygli að því hlutverki sem ópíumefnablokkerar (opiate antagonists) eins og LDN leika í heilun og viðgerðum á vefjum. Litlar aukaverkanir komu fram hjá sjúklingum í rannsókninni en sjö af sautján þátttakendum upplifðu þó svefntruflanir sem er algengt á fyrstu vikum LDN inntöku á meðan ónæmiskerfið er að taka við sér.

Heilbrigðisstofnun Bandaríkjanna og fleiri aðilar hafa nú styrkt Jill P. Smith til áframhaldandi rannsókna, svokallaðrar annars stigs rannsókn (Phase 2 trial) á áhrifum LDN á svæðisgarnabólgu. Búist er við að rannsóknirnar staðfesti getu og öryggi LDN í meðhöndlun sjálfsofnæmissjúkdóma. Ljósmyndir úr smiðju Jill P. Smith. M.D, af áhrifum LDN á líffæri, skaddað af völdum svæðisgarnabólgu, bæði fyrir og eftir meðhöndlun með lyfinu LDN má sjá á http://www.lowdosenaltrexone.org  Þar er um að ræða áhugaverða og augljósa heimild um getu LDN til þess að græða skaddaða líkamsvefi og virkni þess við meðhöndlun sjálfsofnæmissjúkdóma í meltingarvegi.

Rannsókn á áhrifum LDN á vefjagigt
Margar frásagnir sjúklinga af notkun LDN til þess að slá á og halda niðri einkennum vefjagigtar urðu til þess að Jarred W. Younger og Sean C. Mackey ásamt rannsóknarteymi í læknaháskóla Stanford háskóla tók sig til og hóf að rannsaka sannleiksgildi þessara fullyrðinga. Niðurstöðurnar voru á þann veg að LDN minnkaði einkenni vefjagigtar um meira en 30% framyfir lyfleysu sem var gefin samanburðarhópi. Rannsakendur ályktuðu að LDN geti verið árangursrík, ódýr og mjög ásættanleg meðferð við vefjagigt, sjá hér og hér.

Á sama tíma og íslenskt heilbrigðiskerfi glímir við mikinn niðurskurð, má auðveldlega gera ráð fyrir því að vegna þess að LDN er ódýrt geti það sparað milljarða í heilbrigðiskerfinu. Lyfið er breiðvirkt, tiltölulega auðvelt, öruggt meðferðarúrræði. Margir sjúklinga hérlendis hafa undanfarið 2 1/2 ár fengið að reyna frábærar breytingar á heilsu sinni til hins betra við notkun lyfsins.

Við bjóðum lækna og heilbrigðisstarfsfólk velkomið á LDN sjálfshjálparhóp okkar sjúklinga: http://www.facebook.com/groups/114217441992197/  

Skrifað af Gísla Þráinssyni

Myndin með fréttinni sýnir þau Gísla Þráinsson og Mörtu Bjarnadóttur að fá fyrstu afgreiðslu lyfsins LDN í Árbæjarapóteki.

Sjá einnig grein Gísla Þráinssonar á Heilsuhringurinn.is LDN - Lífgjafir og samhjálp á Íslandi


Heimildir:
Samansafn læknisfræði sem varðar LDN: The Promise of ,,Low Dose Naltrexone Therapy“ höfundar Elaine A. Moore og Samantha Wilkinson. http://www.elaine-moore.com/Books/ThePromiseofLowDoseNaltrexoneTherapy/tabid/102/Default.aspx  

Honest Medicine, höfundur Julia Schopick : http://www.honestmedicine.typepad.com/  

Upplýsingavefur um LDN: http://www.ldnscience.org/  

Hugleiðingar um hlutverk LDN í almennri heilsugæslu: http://ldn4cancer.com/techpapers/ldn_for_disease_prevention_quality_of_life.pdf  

Verið velkomin á fésbókarhópinn: Undralyfið LDN (Low Dose Naltrexone) á Íslandi
https://www.facebook.com/groups/114217441992197/  

Upplýsingaskrár LDN rannsóknarsjóðsins ,,Low Dose Research Trust“, sem er bæði fyrir fagfólk og áhugamenn, birti lista yfir sjúkdóma sem LDN gæti haft jákvæð áhrif á, hann má finna á slóðinni: http://www.ldnresearchtrust.org/uploadeddocuments/conditions-where-ldn-could-be.pdf og slóð LDN Rannsóknarsjóðsins er: http://www.ldnresearchtrust.org/