Karfan er tóm.
- Sjúkdómurinn
- Lifað með MS
- Þjónusta
- Útgáfa
- Um félagið
- Styrkja starfið
- Vefverslun
Karfan er tóm.
Meðal annars vegna þeirrar umræðu sem nú er og reyndar hvort sem er tel ég nauðsynlegt að koma á framfæri við MS fólkið og reyndar alla eins réttum upplýsingum um lyfið Naltrexone (LDN) og unnt er. Skal ég gera mitt ítrasta til að vera skýr og tiltölulega stuttorður.
Lyfið Naltrexone er áratuga gamalt. Upphafleg notkun þess og aðalnotkun þess enn var og er til þess að reyna að lækna fólk af fíkn svo sem í áfengi og í sterk eiturefni sem og í sterk lyf sem þó geta vissulega stundum nauðsynleg verið og skyldi ekki gleymast í allri umræðunni. Sett fram í einfaldri mynd þá virkar Naltrexone með þeim hætti í heilanum að það heftir þá skynjun hans á þessum efnum að leiði til löngunar í þau og jafnvel fíknar. Við notkun Naltrexone fæst engin ánægja af víndrykkju eða efnanotkun. Til þess að ná þessum árangri og til þess að viðhalda honum þarf að gefa 50-100 milligrömm af lyfinu á degi hverjum.
En í lengri tíma en sem nemur fjórðungi aldar hefur það verið þekkt að Naltrexone gefið í smáum skammti eða 3-5 milligrömmum á dag (lyfjaheitið LDN stendur fyrir Low Dosis (lágskammta) Naltrexone) getur haft þau áhrif í miðtaugakerfinu að dragi úr þreytu- og verkjaskynjun og þá jafnframt þeirri hugardepurð sem þessu hvorutveggja – þreytu og verkjum – fylgir og stundum einnig nefnt innra þunglyndi. Tengist þetta endorfín virkni. Þá virðist sem lágskammta Naltrexone hafi þau áhrif á ónæmiskerfið að dragi úr bólgusvörun og einnig sýnist efnið geta dregið úr áhrifum eðlilegra niðurbrotsefna sem geta verið skaðleg þar sem komnar eru bólguskemmdir. Þótt virkunin sé um margt óljós hefur hún þó leitt til þess að lyfið í lágskömmtum er notað í svonefndum sjálfsónæmis sjúkdómum og hugsanlega er MS einn slíkur sjúkdómur. Tilgátan er vel þekkt þótt ekki sé þetta staðfest og sannreynd orsök MS. Þá hefur lyfið verið notað við raunverulegum síþreytu heilkennum þar sem ekki er endilega MS um að ræða sem orsök. Síþreyta fylgir mörgum sjúkdómum.
Reynslan af notkun Naltrexone í lágum skömmtum hvort heldur er hjá MS fólki eða öðrum er sú að 7 af hverjum 10 skynja árangur. Einkum er það þreytan sem dvínar og verkir minnka og hugarorkan eykst. Hjá sumum minnkar virkni lyfsins við samfellda notkun þess en endurnýjast ef tekin er hvíld frá notkun þess í 3-6 vikur. Ekki hefur verið sýnt fram á alvarlegar aukaverkanir af notkun lyfsins en þrátt fyrir áratuganotkun verður ekki með vissu fullyrt um áhrif langtíma notkunar. Með þessa vitneskju í huga má vel mæla með notkun lyfsins en þó undir eftirliti og að undangengnu mati og hafa verður í huga að ekki er rétt að nota lyfið með vissum öðrum lyfjum m.a. sterkum verkjalyfjum og jafnframt er þess að geta að lyfið vinnur gegn áhrifum Beta interferon lyfjanna.
Nokkrar rannsóknir liggja fyrir um áhrif Naltrexone í lágskömmtum á MS en niðurstöður þessara rannsókna eru ekki fullnægjandi en áhugi er fyrir frekari rannsóknum og þær líklega framundan. Því er það svo hvað sem tilgátum líður að ósannað er að lyfið geti mildað MS sjúkdóminn og komið í veg fyrir framvindu einkenna í honum þótt það dragi úr þreytu, verkjum og efli hugarorkuna. Enn getur því lyfið ekki talist til hinna fyrirbyggjandi MS lyfja og þar eiga önnur lyf við.
Sverrir Bergmann læknir
---
Því er við að bæta að þriðjudaginn 23. ágúst kl. 20-21.30 verður fræðslufundur um lyfið LDN í húsnæði MS-félagsins að Sléttuvegi 5 í Reykjavík.
Sverrir Bergmann verður með framsögu og svarar spurningum.
Hægt verður að horfa á fundinn í beinni útsendingu hér á heimasíðu félagsins með því að smella hér og senda inn spurningar á msfelag@msfelag.is fyrir fundinn.