Ekki er seinna vænna en að fara að huga að upphitun fyrir Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka, þótt það verði ekki fyrr en laugardaginn 20. ágúst n.k. Samkvæmt þeim fréttum, sem eru okkur tiltækar hafa hátt í 1400 manns skráð sig í hlaupið. Það þýðir að þeir sem ekki eru í æfingu hafa tvo mánuði til að hita sig upp. Reykjavíkurmaraþonið er eins og ávallt áheitahlaup. Þið getið styrkt MS félagið með því að fara á www.hlaupastyrkur.is.  

Þann 3. júní höfðu nákvæmlega 1337 hlauparar skráð sig til þátttöku. Flestir hafa skráð sig í hálft maraþon eða 471 en næst flestir í 10 km. hlaupið eða 436. Þá hafa 356 skráð sig í heilt maraþon og um 70 manns í 3ja km. skemmtiskokk.

Skráðir þátttakendur eru frá 36 löndum, 754 Íslendingar og 583 frá öðrum löndum. Flestir erlendu þátttakendanna koma frá Bandaríkjunum eða 151 en einnig eru margir frá Kanada, Þýskalandi og Englandi.

Væntanlegir þátttakendur eru hvattir til að skrá sig sem fyrst, þar sem þátttökugjaldið hækkar eftir því sem nær dregur hlaupi. Næsta hækkun er 1. júlí.

Til að skrá sig getur fólk farið á vefinn www.marathon.is/reykjavikurmaraton  

Áheitasöfnun
MS félagið tekur fullan þátt í áheitasöfnuninni, en sérstakur vefur hefur verið opnaður í því skyni: www.hlaupastyrkur.is  

Allir skráðir hlauparar fá sendan tölvupóst og geta þá byrjað að safna áheitum. Í fyrra söfnuðust tæplega 30 milljónir til góðra málefna í tengslum við Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka. Skráning góðgerðafélaga er í fullum gangi þessa dagana og hafa alls 54 góðgerðafélög skráð sig til þátttöku.
Þeim fjármunum sem safnast fyrir MS félagið verður varið í að jafna aðstöðu landsbyggðarinnar, s.s. með útsendingu funda á Netinu, fundaferðum stjórnar um landið, styrkveitingum til landsbyggðarhópa og fleiri slíkra verkefna.

MS félagið hvetur sem flesta hlaupara og aðra að safna áheitum til að styrkja starf félagsins, að þessu sinni einkum á landsbyggðinni.

- Halldór