Karfan er tóm.
- Sjúkdómurinn
- Lifað með MS
- Þjónusta
- Útgáfa
- Um félagið
- Styrkja starfið
- Vefverslun
Karfan er tóm.
Margrét Ólafsdóttir eða Magga okkar lést þriðjudaginn 23. mars sl. Margrét fæddist 1. apríl 1926 og átti því stutt í 95 ára afmælið. Margrét greindist ung með MS-sjúkdóminn en á þeim árum eða um 1945 var talað um vírus í mænuvökva. Hún var einn af stofnfélögum MS-félagsins 1968 en þá var vírusinn kominn með nafn, MS-sjúkdómur. Magga tengist MS-félaginu í áratugi sterkum böndum. Hún var fyrsti gjaldkeri félagsins og gegndi því starfi í mörg ár. Þegar dagvist MS-félagsins síðar MS Setrið opnaði 1986 var hún þar með fyrstu starfsmönnum og síðar á lífsleiðinni átti hún eftir að nýta sér þá þjónustu sem þar er í boði.
Hún var ávallt boðin og búin að taka þátt í starfi til styrktar MS-félaginu og Setrinu, baka fyrir árlegan basar, pakka og selja jólakort, sauma grjónapoka svo fátt eitt sé nefnt. Árið 1998 varð hún fyrsti heiðursfélagi MS-félagsins.
Margrét tókst á við MS-sjúkdóminn af æðruleysi og skynsemi. Hún lifði svo sannarlega tímana tvenna varðandi greiningar- og
meðferðarúrræði sjúkdómsins. Hún var ávallt jákvæð, hógvær og öðrum fyrirmynd og hvatning. Magga var mjög minnug og oft var leitað til hennar ef rifja þurfti upp nöfn, ártöl og atburði. Frá árinu 2019 dvaldi hún á Hrafnistu. Hún hélt sinni reisn, góðu minni og gestrisni til hinsta dags.
MS-félagið og Setrið votta aðstandendum hennar dýpstu samúð og þakka hjartanlega áratuga samvinnu, samveru og vináttu.
Margrét verður jarðsungin mánudaginn 29. mars klukkan 15:00 og verður streymt frá athöfninni á slóðinni www.skjaskot.is/margret