Seinna tölublað MeginStoðar 2017 er komið út og er á leið til félagsmanna. Þema blaðsins er heilsa.

 

Meðal efnis er:

  • Viðtal við Sigurð Kristinsson, sem er 23 ára gamall Suðurnesjabúi, og segir hér frá lífi sínu með MS þar sem skipst hafa á skin og skúrir. Með mikilli elju og sjálfstjórn náði hann sér upp úr þunglyndi og lifir nú í sátt við sjúkdóminn. Lokaorð Sigurðar eru umhugsunarverð: „Ég held að mikilvægast fyrir mig og aðra sem eru með MS sé að gefast ekki upp. Ef maður er sífellt að hugsa um hvað allt sé ómögulegt þá held ég að frumurnar í líkamanum verði máttlausari gagnvart sjúkdóminum. Ef maður er jákvæður og bjartsýnn verða frumurnar sterkari í baráttunni og ráða betur við ástandið þannig að maður verður ekki eins veikur.“
  • Pistill Dagbjartar Önnu Gunnarsdóttur „Heilsudagbók og mataræði“. Eftir að Dagbjört greindist fór hún að skoða allt sem hún gat fundið um MS og möguleika á að halda því niðri og komst fljótt að því að það væri líklega samblanda lyfja, lífstíls og skynsemi. Hún hugar því vel að heilsunni, hreyfir sig reglulega, fer út með hundinn fjórum sinnum á dag, fer í sjúkraþjálfun og stundar jóga heima með hundinum.
  • Selma Margrét Reynisdóttir, nemi í sjúkraþjálfun, skrifar um D-vítamínið sem er okkur svo nauðsynlegt. Áður fyrr var mest áhersla lögð á hlutverk D-vítamíns í uppbyggingu beina þar sem skortur á D-vítamíni getur aukið líkur á beinþynningu og beinbrotum hjá fullorðnum. Á undanförnum árum hafa hins vegar sífellt fleiri rannsóknir sýnt fram á að D-vítamínskortur sé mikilvægur þáttur í myndun hjarta- og æðasjúkdóma og að skorturinn sé undanfari og/eða tengist háþrýstingi, sykursýki (týpu 1 og 2), efnaskiptavillu, hjartabilun, hárri blóðfitu, insúlínónæmi, offitu, þunglyndi og MS. Skortur á D-vítamíni hefur einnig verið tengdur við fjölmargar gerðir krabbameina. Rannsóknir hafa einnig sýnt fram á hlutverk D-vítamíns í ónæmiskerfinu, og að skortur á vítamíninu hjá fólki með astma tengist skertri lungnastarfsemi og meiri lyfjanotkun.
  • Sólveig Sigurðardóttir skrifar grein sem ber heitið „Lífsstílsbreyting og mitt MS“. Sólveig heldur úti fésbókarsíðunni Lífstíll Sólveigar sem er alveg hreint frábær síða með heilsusamlegum uppskriftum og fróðlegum greinum. Sólveig  greindist með MS 2003. Eftir mörg erfið ár, þar sem hún barðist meðal annars við offitu og þunglyndi, tók líf hennar breytingum til góðs. Hún fór á námskeið hjá Heilsuborg og fór að trúa á sjálfa sig. Hún fann hvernig heilsan efldist og hugurinn varð skýrari og bjartari. Hún vill meina að hún hafi borðað sig hraustari enda segist hún vanda sig við matseldina. Í dag mætir hún yfirleitt fimm sinnum í viku í ræktina, fer í göngutúra og hleypur, alsæl með lífið og tilveruna.
  • Birna Ásbjörnsdóttir, næringarlæknir, skrifar um áhrif mataræðis á örveruflóru meltingarvegar og heilsu. Æ fleiri rannsóknir staðfesta áhrif mataræðis á heilsu, en síðustu ár hafa augu vísindamanna þó beinst meira að örveruflóru meltingarvegar og hlutverki hennar. Samsetning örveruflórunnar veltur mikið til á fæðuvali hvers og eins. Rannsóknir á mönnum og dýrum hafa leitt í ljós víðtæk áhrif þarmaflórunnar á andlega og líkamlega heilsu. Þarmaflóran virðist spila stórt hlutverk í tengslum við meltingarveg, ónæmis-, hormóna- og taugakerfi. Birna heldur úti mjög fróðlegri vefsíðu, jorth.blog.is, sem byggir á gagnreyndum læknisfræðilegum rannsóknum sem varða næringu og heilsu.

 

Sjá má blaðið í vefútgáfu hér.

 

 

BB