Laugardaginn 17. janúar sl. stóðu Parkinsonsamtökin á Íslandi fyrir fyrirlestri um mikilvægi hreyfingar fyrir heilsuna í Gullteigi á Grand Hótel. Fyrirlesari var Ingibjörg H. Jónsdóttir. Ingibjörg er prófessor í hreyfingu og heilsu við Gautaborgarháskóla og forstöðumaður Streiturannsóknarstofnunar Gautaborgar.

 

Fyrirlesturinn var mjög áhugaverður og mun ég fjalla um helstu atriði sem komu fram.

 

Flestir geta hreyft sig meira en þeir gera

Hreyfigeta okkar er mismunandi og þarf að taka mið af því. Flestir geta hreyft sig meira en þeir gera. Líkaminn er samansettur úr 11 líffærakerfum,  t.d. vöðva-, tauga-, meltingar- og sogæðakerfi. Líffærakerfin þurfa mat, svefn og hreyfingu á hverjum degi til að virka og starfa. Það er okkur jafn mikilvægt að hreyfa okkur eins og að nærast og sofa. Maðurinn er gerður til að hreyfa sig og það er ekki fyrr en á allra síðustu árum sem tæknin tók af okkur völdin og maðurinn kemst nú upp með að hreyfa sig mjög lítið.

 

Sófinn  kallar

Maðurinn þarf ekki lengur að ganga langar vegalengdir til að afla fæðu. Við keyrum í búðina og leggjum sem næst dyrunum. Það er innbyggt í okkar gamla heilbú að þegar þægilegur sófi er til staðar þá kallar sófinn „leggstu og sparaðu hreyfinguna“.

 

Hversdagshreyfing í daglegu lífi er í mörgum tilfellum farin. Hreyfing er ekki lengur hluti af daglegu lífi. Þá koma heilsuræktarstöðvar til sögunnar og greitt er fyrir hreyfingu. Hreyfing er einnig oft tengd við útlit - „í kjólinn fyrir jólin“. Ávinningurinn af hreyfingu er fyrst og fremst bætt líðan og minni hætta á lífstílssjúkdómum. Betra útlit er svo bónus.

 

Aldrei of seint að byrja

Hreyfingu þarf að hugsa út frá því að bæta heilsuna og halda líffærakerfunum í lagi. En hvar á að byrja? Það er hægt að byrja á því að ganga í kringum borðið heima hjá sér og svo má fjölga ferðum. Síðan er næsta skref að fara út og ganga í kringum húsið sem síðan verður að hring í hverfinu.

 

Ingibjörg  miðar við að 150 mínútur á viku væri sú hreyfing sem væri hverjum manni nauðsynleg. Það eru 30  mínútur á dag, 5 daga vikunnar.

 

Ávinningur hreyfingar

Hreyfing kemur aldrei í stað lyfja. Ávinningur hreyfingar er fyrst og fremst bætt líkamleg heilsa og andleg líðan verður betri. Þjálfun heldur heilanum virkum, bæði líkamleg þjálfun sem og andleg virkni eins og að ráða krossgátur.

 

Hreyfing skiptir máli á öllum aldri og þá sem eiga erfitt með hreyfingu þarf að aðstoða. Hreyfing getur seinkað einkennum hjá MS-einstaklingum, dregið úr kvíða og þunglyndi og hefur jákvæð áhrif á hjarta- og æðarkerfi. Styrktarþjálfun er mikilvæg. Það er mikilvægt að hafa vöðva, vöðvauppbygging bætir jafnvægið og getur dregið úr hættu á beinbrotum.


Hvert lítið skref skiptir máli

Það getur verið erfitt að koma sér í rútínu með hreyfingu. Þá þarf að vinna með hugann, hrósa sér fyrir árangur og hugsa uppbyggilegar hugsanir. Þá er bara að byrja, hvert lítið skref skiptir máli. Það sem er innbyggt í okkur frá gamalli tíð - að borða þegar nægur matur er til og hvíla sig þegar færi gefst á - á ekki lengur við. Hreyfing er okkur lífsnauðsynleg sama hvað okkar gamli heili hvíslar að okkur.

 

 

Berglind Guðmundsdóttir