Í þessu fyrra tölublaði MS blaðsins í ár kennir ýmissa grasa. Formannspistillinn er á sínum stað, upplýsingar um þjónustu og starfsemi félagsins, sagt frá gjöfum til MS-félagsins og MS Setursins og stjórn Skells, félagshóps fyrir unga / nýgreinda einstaklinga með MS segir frá sínu starfi. Þá er nýtt fyrirkomulag jafningjastuðnings kynnt og yfirferð yfir starf félagsins út frá stefnumótuninni sem sett var fram í tilefni af 50 ára afmæli félagsins árið 2018. Verðlaunakrossgátan er einnig á sínum stað

Opnuviðtalið er við Húna Hinrichsen. Húni er fertugur, kvæntur fjögurra barna faðir og starfar hjá tölvuleikjafyrirtækinu CCP. Húni greindist með MS fyrir rúmu ári eftir langt árabil í glímu við þrálátan krankleika í meltingarfærum þar sem erfitt hafði reynst að finna hina raunverulegu orsök.

Ólafur Árni Sveinsson, taugalæknir á taugalækningadeild LSH kynnir fyrir lesendum hugtak sem hefur verið að ryðja sér til rúms síðastliðin tíu ár en það er hugtakið um enga sjúkdómsvirkni eða ‘no evidence og disease activity’ (NEDA). Hugmyndin bak við það er að markmið fyrirbyggjandi MS-meðferðar sé að reyna að stöðva alla sjúkdómsvirkni og koma alveg í veg fyrir ný köst, nýjar skellur og frekari fötlun.

Mikilvægi reglubundinnar hreyfingar fyrir alla er viðfangsefni greinar Belindu Chenery, sjúkraþjálfara. Gagnsemi hreyfingar verður aldrei of oft tíunduð. Hún er nauðsynleg til að bæta lífsgæði og vellíðan og stuðlar að betri færni, virkni og þátttöku í lífinu.  Áður fyrr var hreyfing jafnvel talin óæskileg fyrir fólk með MS en rannsóknir hafa sýnt fram á að reglubundin líkamsþjálfun er mikilvægt vopn í baráttunni við líkamleg og andleg einkenni sjúkdómsins og er hægt að finna þjálfun við hæfi á öllum stigum sjúkdómsins.

Þá deila þrír einstaklingar með MS reynslu sinni af reglulegri hreyfingu, göngu, æfingum í Styrk og þátttöku í MS-þrekinu á Facebook, en þar er æfingum streymt í lokuðum hóp tvisvar í viku við góðar undirtektir.

Við sendum ritstjóra og ritstjórn kærar þakkir fyrir góð störf og flott blað.

 

MS blaðið á rafrænu formi

 

Efnisyfirlit:

  • Formannspistill
  • Markviss Skellur
  • Engin sjúkdómsvirkni markmið fyrirbyggjandi MS-meðferðar
  • Mikilvægi þjálfunar fyrir alla
  • Ómissandi í „sóttkvíar-tilveru“
  • Hreyfing á tímum COVID-19
  • Styrkur og gengið við vötn
  • Enginn upplifir MS nákvæmlega eins
  • Stefnumótun félagsins
  • Jafningjastuðningur
  • Verðlaunakrossgáta