Fyrra tölublað MS-blaðsins er komið út á rafrænu formi og er aðgengilegt hér. Blaðið fer svo í prentun eftir páska og verður í framhaldinu sent í pósti til þeirra félaga sem það kjósa, auglýsenda og styrktaraðila ásamt helstu heilbrigðisstofnunum og bókasöfnum. 

Í blaðinu eru viðtöl við starfsfólk og fyrrum starfsfólk taugadeildar Landspítala háskólasjúkrahúss: Þau Hauk Hjaltason taugalækni sem er að hnýta lausa enda og lýkur brátt störfum; Jónínu Hallsdóttur MS-hjúkrunarfræðing sem lét af störfum í lok síðasta árs og loks Ásdísi Árnadóttur sem tók við af Jónínu.

Brynjar Valdimarsson er lunkinn snókerspilari og keppti nýverið á tveimur mótum á heimsmótaröð fatlaðra í snóker. Erla María ritstjóri tók hann í stutt spjall af því tilefni.

Golfíþróttin nýtur sívaxandi vinsælda og Golfsamband Íslands hefur sett sér markmið að skapa menningu án aðgreiningar með bestu mögulegu upplifun fyrir kylfinga með fötlun. Erla María ritstjóri kynnti sér málið og ræddi við Huldu Bjarnadóttur, forseta GSÍ. Þá ritar Hjördís Ýrr Skúladóttir pistil um sína golfiðkun ásamt því að kynna til sögunnar styrktargolfmót félagsins sem haldið verður á Bakkakotsvelli laugardaginn 31. maí næstkomandi. 

Sunna Gylfadóttir, stærðfræðikennari við Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra, skrifar um sína MS-greiningu, það sem skiptir máli í raun og veru og hvernig hún tekst á við þá áskorun að taka bara einn dag í einu, lifa í núinu.

Forsvarsfólk landsbyggðarhópa á Austurlandi, Suðurnesjum, Skagafirði og Norðurlandi veitir lesendum blaðsins innsýn inn í starf þeirra og hvaða máli það skiptir að finna styrkinn í hópastarfi og nauðsyn þess að geta spjallað saman og fengið stuðning frá jafningjum.

Við þökkum ritstjóra og ritnefnd kærlega fyrir vel unnin störf við blaðið. Auglýsendum og styrktaraðilum þökkum við einnig kærlega fyrir veittan stuðning. Án hans gætum við ekki haldið úti þessari metnaðarfullu útgáfu sem MS-blaðið er.

Við vonum að þið njótið lestursins yfir páskahátíðina.

 

MS-blaðið á rafrænu formi

 

Efnisyfirlit:

  • Formannspistill
  • Pistill ritstjóra
  • Vaktaskipti á taugadeildinni
  • Tókst á við áföllin með því að spila snóker
  • Þakklátur fyrir að hafa fengið að taka þátt í byltingum
  • Forgjöf eða fötlun
  • MS í 10 ár
  • Golf fyrir alla
  • Pistlar frá landsbyggðinni