Í þessu tölublaði MS-blaðsins eru fastir liðir, s.s. pistill frá formanni, upplýsingar um þjónustu, starfsemi, söluvarning og fleira. Kynnt er verkefni Tryggingafélagsins VÍS, en við kaup á líf- og sjúkdómatryggingum á netinu er hægt að velja góðgerðarfélag til að styrkja og er MS-félagið eitt af þremur mögulegum. Þá er sagt frá einkar rausarlegri og hugulsamri gjöf tíundu bekkinga Flóaskóla veturinn 2019-2020. 

Opnuviðtalið er við Þóreyju Dögg Jónsdóttur djákna og framkvæmdastjóra Eldriborgararáðs Reykjavíkurprófastdæma eystra og vestra. Þórey Dögg greindist með MS árið 1992 og líf hennar með sjúkdómnum hefur um margt verið sérstakt, ekki síst eftir að hún tók meðvitaða ákvörðun um að láta hann ekki stjórna ferðinni heldur ráða sér sjálf.

Hjördís Ýrr Skúladóttir deilir með okkur frásögn og myndum frá mögnuðu 2ja ára ferðalagi og dvöl fjölskyldu hennar erlendis í kjölfar MS greiningar og veikindaleyfis. Hjördís Ýrr og fjölskylda ferðuðust til yfir 20 landa í húsbíl og nutu lífsins, stunduðu sjálfboðavinnu og tókust á við margar áskoranir.

Í könnun fræðsluteymis félagsins sem kynnt var í síðasta blaði kom fram að um helmingur MS-greindra taldi sig félagslega einangraða og má leiða að því líkur að á tímum COVID-19 hafi það hlutfall hækkað eitthvað. Við fengum því Maríu Rúnarsdóttur, félagsráðgjafa félagsins, til að fjalla um félagslega virkni og samveru og koma með góð ráð til að auka félagsleg tengsl og virkni. Þá deilir Unnur Malín Sigurðardóttir tónlistarmaður með okkur sinni reynslu af því að viðhalda félagslegri virkni og tengslum á þessum tímum.

Á haustdögum áttu fulltrúar félagsins góðan fund með MS-teymi göngudeildar taugalækninga þar sem rædd voru mál eins og aðgengi að þjónustu deildarinnar, upplýsingagjöf til nýgreindra og hvernig haldið er utan um einstaklinga með langt genginn MS-sjúkdóm. Þá deildi Ólafur Árni Sveinsson með okkur fréttum af COVID-19 frá nýafstaðinni ECTRIMS ráðstefnu.

Sem sagt efnismikið og áhugavert blað og sendum við ritstjóra og ritstjórn blaðsins þakkir fyrir góð störf.

 

Nálgast má blaðið á rafrænu formi hér

 

Efnisyfirlit: 

  • Frá formanni
  • Styrkir til félagsins og þakkir
  • Af alþjóðasamstarfi
  • Starfsemi félagsins á tímum kórónuveiru og COVID-19
  • Leikið og sungið á samfélagsmiðlum
  • Félagsleg virkni og samvera
  • Lífið er einstakt – njóttu þess!
  • Ég er ekki MS-sjúkdómurinn!
  • Skellur á netinu
  • Frá fræðsluteyminu
  • Fundur með göngudeild taugalækninga á LSH
  • MS Setrið á tímum Covid-19