Seinna tölublað MS-blaðsins er komið út og ætti að berast inn um bréfalúguna hjá þeim félögum sem það kjósa, auglýsendum og styrktaraðilum ásamt helstu heilbrigðisstofnunum og bókasöfnum á allra næstu dögum. Þau sem kjósa að lesa blaðið rafrænt geta nálgast það nú þegar hér á síðunni.

MS-blaðinu hefur borist öflugur liðsstyrkur úr röðum félaga. Erla María Markúsdóttir, sem er blaðamaður á Heimildinni, tók við sem ritstjóri á haustdögum og kynnir hér sitt fyrsta blað sem er stútfullt af áhugaverðu efni.

Í blaðinu eru viðtöl við fólk með MS: Þorstein Árnason Sürmeli sem gerir veikleika að styrkleika; Ester Hansen sem mat lífsgildi sín upp á nýtt í kjölfar greiningar og Steinunni Þóru Árnadóttur sem hverfur af þingi en ætlar að halda áfram að berjast fyrir betri heimi.

Helena Unnarsdóttir, nýr félagsráðgjafi félagsins, skrifar um þá þjónustu sem félagsráðgjafi getur veitt fólki með MS og aðstandendum þeirra.

Elín Broddadóttir, sálfræðingur, segir frá nýjustu fréttum af rannsóknum á barneignum og meðgöngu kvenna með MS frá ECTRIMS ráðstefnunni sem haldin var í Kaupmannahöfn í haust.

Lára Björk Bender og Svavar Guðfinnsson formenn félagshópanna Skells og Hvells segja frá fyrstu kynnum sínum af MS-félaginu.

Þá kíkti ritstjóri við í pálínuboði Hvells á Sléttuveginum á dögunum og að sjálfsögðu eru fastir liðir eins og formannspistill, pistill ritstjóra ofl. einnig á sínum stað.

Við þökkum ritstjóra og ritnefnd kærlega fyrir vel unnin störf við blaðið. Auglýsendum og styrktaraðilum þökkum við einnig kærlega fyrir veittan stuðning. Án hans gætum við ekki haldið úti þessari metnaðarfullu útgáfu sem MS-blaðið er.

Það er fátt notalegra í skammdeginu og kuldanum en að koma sér vel fyrir með brakandi ferskt blað að lesa og við vonum að þið njótið lestursins.

 

MS-blaðið á rafrænu formi

 

Efnisyfirlit:

  • Formannspistill
  • Pistill ritstjóra
  • Fyrir hvern er félagsráðgjafi MS-félagsins?
  • Að gera veikleika að styrkleika
  • Ljósið í myrkrinu og knús sem er alltaf í boði
  • Ætlar að halda áfram að berjast fyrir betri heimi
  • Konur með MS – Barneignir og meðganga
  • MS-greining og hjólastóll – hjálpartækin skilgreina okkur ekki