Þann 26. maí næstkomandi verður haldið upp á alþjóða MS-daginn um heim allan. Alls eru rösklega tvær milljónir manna með MS í heiminum. Þetta verður í annað sinn, sem sérstakur dagur er helgaður þessum ólæknandi sjúkdómi. Áherzla dagsins í ár er atvinna og atvinnuþátttaka MS-sjúklinga og aukin vitund almennings um þennan ólæknandi sjúkdóm. Sérstök samkoma verður í MS-húsinu á Sléttuveginum síðdegis. Nánar verður greint frá dagskránni hér á vef félagsins.

Meginmarkmið MS-félaga um allan heim er að helga sig baráttunni fyrir réttindum MS-sjúklinga, bættri meðferð sjúkdómsins og eflingu vísindarannsókna í leit sérfræðinga að lækningu sjúkdómsins.

Eitt meginmarkmiða MS félagsins á Íslandi er að sjúklingar fái beztu hugsanlegu meðferð. Í fyrra var sérstök áherzla lögð á að allir sem þyrftu fengju Tysabri-lyfið, öflugasta viðnámslyfið, sem fáanlegt er. Á því hefur ekki orðið breyting. Berglind Guðmundsdóttir, formaður MS-félagsins flytur ávarp á MS-daginn, þar sem hún fjallar lauslega um þau mál, sem helzt eru á dagskrá félagsins um þessar mundir.

Hérlendis er ástand þjóðarbúsins og efnahagslífsins sér á báti í samanburði við flest önnur lönd í hinum vestræna heimi vegna bankahrunsins. Áhyggjur hafa vaknað á meðal MS-sjúklinga vegna breytinga á reglugerð um aðgang að lyfjum af ýmsu tagi, sem MS-sjúklingar nota, bæði gömlum lyfjum og ekki síður nýju lyfjunum, sem gætu hugsanlega komið á markað innan eins árs.

Þá hefur Guðmundur Magnússon, formaður Öryrkjabandalagsins, vakið athygli á fyrirhuguðum sparnaðaraðgerðum stjórnvalda, sem Öryrkjabandalagið óttast að muni skerða stórlega lífeyri þeirra, sem minnst mega sín í samfélaginu.

Verkefni MS-félagsins eru þannig af ýmsum toga, en á MS-daginn verður lögð aðaláherzla á atvinnuþátttöku MS-sjúklinga, stöðu og lífsgæði þeirra og áhrif MS almennt á líf MS-greindra og aðstandenda þeirra.

Unnið er hörðum höndum að undirbúningi MS-dagsins, sem verður eftir tæpa viku. Auk Íslands halda MS-félög í um 50 löndum MS-daginn hátíðlegan í því skyni að vekja athygli á þessum erfiða og ólæknandi sjúkdómi.

MSIF, alþjóðasamtök MS-félaga, standa á bak við undirbúning og skipulag MS-dagsins á heimsvísu. Opnuð hefur verið sérstök heimasíða alþjóða MS-dagsins, þar sem fólk getur m.a. stutt MS-félög annað hvort í orði eða á borði, skoðað MS-stuttmyndina A Beautiful Day við tónlist Bono og félaga í hljómsveitinni U2 (sem keppir til verðlauna í sínum flokki á Cannes-kvikmyndahátíðinni) o.s.frv.

Skoðið heimasíðu alþjóða MS-dagsins!

-hh