Uppfærð frétt: Í dag þ. 26. maí verður haldinn í annað sinn upp á alþjóða MS-daginn víða um heim. Á Sléttuvegi 5, MS-setrinu og vonandi í sól og sumri úti í garði efnir MS-félagið á Íslandi til sumarhátíðar í tilefni dagsins með sérstakri dagskrá. Að þessu sinni er atvinna og atvinnuþátttaka MS-fólks grunnstef MS-dagsins. Formleg dagskrá hefst í húsakynnum félagsins að Sléttuvegi 5 upp úr kl. 15 með ávarpi Berglindar Guðmundsdóttur, formanns MS-félagsins og stendur hátíðin til kl. 18. Ýmislegt verður á dagskrá.

DAGSKRÁ SUMARHÁTÍÐAR MS-FÉLAGSINS Á ALÞJÓÐA MS-DEGINUM

  • Ávarp Berglindar Guðmundsdóttur, formanns.
  • Bókin „Benjamín – mamma mín og MS“ afhent.
  • Heimsmeistararnir í að spila ballskák heimsækja okkur.
  • Lalli Töframaður skemmtir börnum og fullorðnum.
  • Sigríður Thorlacius og hljómsveitin Heiðurspiltar spila og syngja.
  • Opið hús í MS Setrinu.
  • Grillaðar pylsur, gos og fleira góðgæti í boði.
  • Hoppukastali og fleira fyrir börnin.

Að loknu ávarpi Berglindar formanns munu fulltrúar fyrirtækisins Bayer Schering Pharma afhenda fyrsta eintakið af bókinni „Benjamín, mamma mín og MS“, sem þýdd hefur verið yfir á íslensku. Fyrirtækið hefur látið prenta bókina í 1500 eintökum og gefur félaginu upplagið. Bókin þykir mjög athyglisverð. Hún segir sögu MS sjúklings og sonar hennar og svarar mörgum áleitnum spurningum okkar og hvetur þá sem þjást af sjúkdómnum til að ræða um það sem þeim liggur á hjarta.

Bókin fer svo í almenna dreifingu í júní. MS-félagið þakkar rausnarskap fyrirtækisins.

Þá heimsækja samkomuna vinirnir Ingi Þór Hafdísarson og Sigurðar Heiðar Höskuldsson, sem á dögunum settu heimsmet í íþróttinni ballskák (“pool” upp á enska tungu), en þeir unnu það þrekvirki að spila ballskák til styrktar MS-félaginu sleitulaust í samtals 72 klukkustundir!

Afrek þeirra vakti mikla athygli og var fjallað um heimsmetið bæði í prent- og ljósvakamiðlum. Um leið vakti tiltæki þeirra félaga athygli á MS-sjúkdómnum og MS-félaginu, en hvatinn að því að þeir Ingi Þór og Sigurður Heiðar söfnuðu áheitum í þágu MS-félagsins var sá, að góður vinur þeirra greindist nýlega með MS.

Þá skemmtir hinn landsfrægi Lalli Töframaður bæði börnum og fullorðnum, en hann er bæði fyndinn og skemmtilegur auk þess að vera öðruvísi töframaður.

Sigríður Thorlacius og hljómsveitin Heiðurspiltar munu stíga á stokk og skemmta okkur með lögum af hljómdiskinum „Á Ljúflingshól“, en sem kunnugt er þá færði Útgáfufélagið Skrjóða félaginu nokkurt upplag af diskinum að gjöf og þökkum við hér með fyrir gjöfina. Hægt verður að kaupa diskinn á staðnum.

MS Setrið verður með opið hús og verður hægt að kynna sér bæði aðstöðuna og starfsemina.

Boðið verður upp á grillaðar pylsur, gos, ís frá Kjörís og súkkulaði frá Góu-Lindu fyrir gesti og gangandi. Að auki verður á staðnum hoppukastali og fleira fyrir börnin. Við hvetjum því allt MS-fólk, aðstandendur og áhugamenn að fjölmenna á sumarhátíðina og taka börnin með sér.

Fjölmörg fyrirtæki og einstaklingar hafa lagt okkur lið með góðum afslætti, gjöfum og sjálfboðavinnu og færum við þeim okkar bestu þakkir.

Í fyrra var haldið upp á fyrsta alþjóða MS-daginn í einhverju mesta blíðviðri sumarsins 2009 og veðurspá dagsins gerir ráð fyrir mildum og sólríkum degi í dag.

Nánari upplýsingar um alþjóða MS-daginn eru hér á vef MS-félagsins og sérstakri heimasíðu dagsins: www.worldmsday.org/home


Alþjóðlegi MS-dagurinn 2010

- hh