Dofi er með algengustu byrjunareinkennum MS. Hann getur komið í stórum eða litlum hluta líkamans og varað í styttri eða lengri tíma.

Tilfinningin er einkennileg þegar komið er við dofin húðsvæði þar sem viðkomandi finnur minnkað skyn eða bara öðruvísi tilfinningu en venjulega.

Náladofi flokkast undir skyntruflanir og er talinn til taugaverkja.

 

Að vera dofinn í fótum er eins og að ganga á svampi sem getur aukið fallhættu. Þegar fingur eru dofnir getur verið erfitt að vinna fínvinnu en einnig getur verið erfitt að skrifa, klæða sig eða halda á bolla, hníf eða öðrum hlutum á öruggan hátt. Þá er hætta á að maður missi hluti úr höndum sér.

Mikill dofi í andliti getur aukið hættuna á að bíta í munnholdið eða í tunguna á meðan maður borðar eða tyggur. Eins getur dofi í einhverjum hluta líkamans aukið hættuna á því að brenna sig þegar komið er við heita hluti, eins og potta, eða ekki skynjað heita vatnið fyrr en of seint.

Dofi getur valdið erfiðleikum í kynlífi. Sjá fróðleikssíðuna um kynlíf og MS eða bæklinginn Daglegt líf með MS – um kynlíf, bls. 17-18.

 

Meðferð og góð ráð

Eins og fyrr segir getur dofi verið tímabundinn í lengri eða skemmri tíma eða verið viðvarandi. Á meðan hann er þolanlegur og hefur ekki mikil áhrif á daglegt líf er lyfjameðferð með taugaverkjalyfjum sjaldnast reynd. 

Sem betur fer er ýmislegt hægt að gera til að vinna á móti dofanum og þeim aðstæðum sem hann skapar:

Gott er að hafa fyrir reglu að taka aldrei á pottum nema með ofnhönskum, að skrúfa aðeins að litlu leyti frá heitu vatni samhliða því að blanda það með köldu eða fá aðra til að stilla fyrir sig rétt hitastig.

Ef dofinn er það mikill að erfitt er að halda um hluti án þess að missa þá er hægt að kaupa ýmis konar hjálpartæki fyrir eldhús og bað. Til dæmis er hægt að kaupa skriðstopp til að ná betra taki á hlutum og eins er gott að nota hnífapör með stömu yfirborði. Skriðstopp er t.d. hægt að kaupa í Rúmfatalagernum og hjálpartæki fyrir eldhús og bað er t.d. hægt að kaupa hjá Eirbergi eða Fastus. Sjá vefslóðir hér.

Svo er um að gera að hugsa í lausnum og nýta það sem til er til að gera verkefnin auveldari. Til dæmis væri hægt að hengja lyklakippuhringi á rennilása til að ná betra taki á rennilásnum til að renna upp og niður.    

Ef dofi er í fótum er gott að hafa göngustaf innan seilingar eða göngugrind til að styðjast við til að forðast fallhættu. Hægt er að kaupa samanbrjótanlega stafi sem lítið fer fyrir. Sjá verslanir með göngustafi hér.

Sumum finnst gott að nudda dofna svæðið með gaddabolta/-rúllu til að losna við pirringinn sem oft fylgir dofanum. Slíka bolta er hægt að kaupa víða, t.d. á mörgum sjúkraþjálfunarmiðstöðvum, íþróttamiðstöðvum, íþróttaverslunum og verslunum með hjálpartæki.   

Svo eru þeir sem nota íhugun, slökun eða öndunaræfingar til að útiloka einkennin, sjá t.d. hér og hér.

Einhverjir bíta svo bara á jaxlinn og vona að óþægindin gangi fljótt yfir.

 

Talaðu um einkenni þín við aðra einstaklinga með MS. Þú ert ekki ein/n um að finna fyrir skyntruflunum. Það er ótrúlegt hvað margir luma á góðum ráðum.

 

Góð ráð frá MS-fólki:

  • "Ég hef notað þunna "gervi húð" á bletti þar sem snertiskynið hefur verið brenglað út af dofa, það hefur dregið úr óþægindunum."
  • "Þegar ég finn að hönd eða fótur er að dofna ( þá hef ég ekki setið eða staðið rétt ) þá reyni ég að hrista og hreyfa það sem er dofið þangað til að ég hef fengið rétta tilfinningu. Klikkar ekki. Gangi þér vel !"
  • "Ég fæ oft dofa í fæturnar. Er oftast með dofa í iljum og hann er minnstur á morgnana. Á kvöldin er dofinn komin upp fyrir hné. Ég reyni að vera á hreyfingu, ekki sitja lengi í sömu stellingu. Teygja á fótum og hreyfa ökklann(snúa í hringi). Dofinn minnkar ekki við þetta en fæturnir haldast liðugri og þar með á ég auðveldara með hreyfingu."

 

 

Lumir þú á góðum ráðum um hvernig takast megi á við dofa, endilega deildu þeim með öðrum með því að skrifa skilaboð með fréttinni á fésbókinni eða senda tölvupóst á netfangið bergthora@msfelag.is.

Góðu ráðin verða birt og varðveitt hér – aðgengileg og öllum til góðs. 

 

 

Bergþóra Bergsdóttir, fræðslufulltrúi

 

Heimild hér og hér (bls. 13)