Meltingin er afar flókið ferli og felur í sér samhæfingu margra mismunandi tauga og vöðva. Það er því ekki að undra að margir eigi við ýmis hægðavandamál að stríða eins og hægðatregðu, óreglulegar hægðir eða hægðaleka. Eðlilegt er að losa sig við hægðir einu sinni til tvisvar á dag án áreynslu.

Hægðavandamál þurfa alls ekki að tengjast MS. Í MS eru vandamálin tengd truflunum á skilaboðum á milli heila og ýmissa hluta meltingarkerfisins, auk afleiddra atriða eins og aukaverkana lyfja, vegna hreyfingarleysis og þess háttar.  

Mikilvægt að hafa reglulegar hægðir því annars eykst hættan á þvagfærasýkingu þar sem erfiðara verður að tæma þvagblöðruna auk þess sem öll almenn líkamleg og andleg óþægindi aukast.

 

Hægðatregða og óreglulegar hægðir

Hægðartregða er þegar einstaklingur hefur hægðir sjaldnar en þrisvar í viku. Orsök hægðatregðu og óreglulegra hægða getur verið minni hreyfing, að viðkomandi drekkur ekki nægjanlega eða borðar ekki nóg af trefjaríku fæði. Einnig getur ástæðan verið aukaverkun lyfja, spasmar, þreyta og/eða minni tilfinning í grindarbotni.

 

Góð ráð

  • Margir með MS veigra sér við að drekka nægjanlega svo þeir þurfi ekki stöðugt á salernið. Hins vegar er nauðsynlegt að drekka nóg (1,5 – 2 lítra á dag) til að halda hægðunum góðum. Heitir drykkir (án mjólkur) eru betri en kaldir. Hægt er að kaupa hægðalosandi te. Ef þvagið er dökk gult þá drekkur þú ekki nóg.
  • Borðaðu sveskjur, döðlur eða fíkjur og trefjaríka fæðu, t.d. All bran (morgunkorn) hveitiklíð, gróft korn, hnetur, hörfræ, ávexti og grænmeti.
  • Forðastu hvítt brauð, hvítt pasta, hvít hrísgrjón og þess háttar
  • Borðaðu reglulega yfir daginn.
  • Fyrir heilbrigða þarmaflóru er hægt að taka inn t.d. LGG eða Acidophilos-gerla.
  • Forðastu hreyfingaleysi – stundaðu líkamsrækt.
  • Gerðu grindarbotnsæfingar reglulega. Sjá æfingar hér fyrir karla og hér fyrir konur.
  • Ekki fresta því að fara og gefðu þér góðan tíma í ró og næði.
  • Farðu alltaf á salernið á svipuðum tíma til að koma á reglu.
  • Það gæti hjálpað að sitja á salerninu með hnén hærra uppi en mjaðmirnar (þú getur notað fótskemil/tröppu eða álíka), þar sem þú hallar þér fram bein/-n í baki og hvílir olnbogana á hnjánum.
  • Þú gætir líka hnoðað varlega neðarlega á kviðinn með réttsælis hreyfingu þétt upp hægra megin kviðar, yfir á magann og niður vinstra megin. Þetta kviðnudd er einnig hægt að gera uppi í sófa eða í rúmi og gæti verið gagnlegt að gera reglulega.
  • Þú gætir haldið dagbók í svo sem vikutíma yfir það sem þú borðar og drekkur, tekur inn af lyfjum, hvenær þú hefur hægðir og hvernig þær eru, til að reyna að átta þig á hvað veldur vandanum. Taktu út eða breyttu einu í einu.
  • Athugaðu hvort einhver lyf sem þú tekur geti valdið hægðavandamálum. Ef svo er, ráðfærðu þig við lækni þinn. Ýmis lyf sem notuð eru við einkennum MS geta valdið truflunum, eins og oxybutinin og tolteridine sem notuð eru við þvagvandamálum, baclofen sem notað er við vöðvaspennu og Seroxat og amitriptyline sem notuð eru við þunglyndi og kvíða, auk ýmissa fæðubótarefna með járni og sýrubindandi lyf.
  • Hægðalosandi lyf fást án lyfseðils. Langtímanotkun getur verið varasöm án samráðs við lækni.
  • Leitaðu til læknis ef vandamálið verður viðvarandi og sérstaklega ef blóð kemur með hægðum.

 

Hægðaleki

Hægðaleki er það þegar viðkomandi hefur ekki stjórn á hægðum sínum og getur þ.a.l. misst hægðir. Orsökin getur verið framhjáhlaup (n.k. niðurgangur), minni tilfinning í endaþarmi eða minni stjórn á endaþarmsopi, ofnotkun á hægðalyfjum, ákveðið mataræði og sýkingar í meltingarvegi.

 

Góð ráð

  • Þú gætir haldið dagbók í svo sem vikutíma yfir það sem þú borðar, tekur inn af lyfjum og drekkur, hvenær þú hefur hægðir og hvernig þær eru, til að reyna að átta þig á hvað veldur vandanum. Taktu út eða breyttu einu í einu.
  • Ósýnileg hjálpartæki eins og þvagbindi og -buxur, sjá verslanir hér.
  • Gerðu grindarbotnsæfingar reglulega. Sjá hér fyrir karla og hér fyrir konur.
  • Til eru sérstakir endaþarmstappar sem hægt er að hafa upp í endaþarmi í allt að 12 tíma áður en þeir eru fjarlægðir á auðveldan hátt. Hafðu samband við lækni eða hjúkrunarfræðing ef þetta gæti hentað þér.
  • Athugaðu hvort einhver lyf sem þú tekur geti valdið hægðavandamálum. Ef svo er, ráðfærðu þig við lækni þinn.
  • Leitaðu til læknis ef vandamálið verður viðvarandi.
  • Ef endaþarmurinn er aumur gæti verið ráð að fá sérstakt krem (sótthreinsandi og græðandi) ávísað hjá heimilislækni til að bera á auma svæðið og vera í þægilegum bómullarnærbuxum.

 


Talaðu um einkenni þín við aðra einstaklinga með MS. Þú ert ekki ein/n um að finna fyrir hægðavandamálum. Það er ótrúlegt hvað margir luma á góðum ráðum.

 

 

Bergþóra Bergsdóttir, fræðslufulltrúi

 

Heimild hér, hér og hér

Mynd hér